Sala áfengis og tóbaks

Fimmtudaginn 01. febrúar 2007, kl. 17:49:48 (4193)


133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

26. mál
[17:49]
Hlusta

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á þessum málflutningi. Í annan stað segir hv. þingmaður að það eigi að hafa færri sölustaði, takmarka sölustaði, og hinn að það eigi að fjölga þeim mjög úti á landsbyggðinni, nota bene, ekki í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu, en að á landsbyggðinni eigi að bæta þjónustuna og fjölga sölustöðum með meira úrval. Á sama hátt segir hv. þingmaður, sem ég er að vísu ósammála henni um, að tíðarandinn sé að sjálfsagt þyki að börn og ungmenni fái aðgang að bjór og áfengum gosdrykkjum. Þvert á móti upplifi ég miklar áhyggjur foreldra með börn og ungmenni á viðkvæmum aldri og að menn hafi miklar áhyggjur af þessum málum. Ég finn ekki fyrir þessum tíðaranda, ég vona að það sé ekki rétt að það sé sjálfsagt að ungmenni geti gengið í þetta.

Þetta gengur ekki alveg upp. En ef við vísum í skýrsluna sem hv. þingmaður las úr — og þar er ég ekki sammála hv. þingmanni að það eigi að fjölga sölustöðum og bæta vöruúrvalið og bæta þjónustuna úti á landi, ekki í Reykjavík, heldur úti á landi, en ég er sammála því sem kemur fram í skýrslunni — og ef menn fara alla leið þá erum við komin í það far sem var hér á landi fyrir nokkrum árum eða kannski áratugum. Ég get ekki séð að það ástand hafi verið til fyrirmyndar, því miður.

Ég ætla ekki að gera lítið úr áfengisvandanum, það hvarflar ekki að mér. Það þekkja það allir Íslendingar og það þekkist alls staðar í heiminum að það er alvarlegt vandamál og erfitt að taka á. En ég hef ekki trú á því, m.a. vegna þess að ég hef upplifað það, að slík höft og takmarkað aðgengi hafi skilað þeim árangri sem til var ætlast.