Almannatryggingar

Fimmtudaginn 01. febrúar 2007, kl. 19:23:42 (4215)


133. löggjafarþing — 64. fundur,  1. feb. 2007.

almannatryggingar.

54. mál
[19:23]
Hlusta

Flm. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 117/1993. Meðflutningsmaður með mér er hv. þm. Ögmundur Jónasson.

Það er mér ánægjuefni að geta mælt fyrir frumvarpinu í dag þar sem ljóst er að samkvæmt kynningu á nýrri skýrslu Lýðheilsustöðvar sem fram fór í gær um tannheilsu íslenskra barna og unglinga ætti að vera lýðum ljóst að nauðsynlegt er að bregðast við versnandi tannheilsu barna og unglinga á Íslandi.

Hæstv. heilbrigðisráðherra lét þess getið eftir kynninguna að full ástæða væri til að bregðast við og að fyrstu skref gætu hugsanlega verið að sinna ákveðnum aldurshópum barna og unglinga og að þeir fengju sérstaka þjónustu hjá tannlæknum og Tryggingastofnun. Það er af hinu góða. Dregið hefur úr stuðningi við barnafjölskyldur vegna tannlæknaþjónustu, þ.e. niðurgreiðslu Tryggingastofnunar á kostnaði við tannviðgerðir og tannréttingar barna bæði hvað varðar hlutfall greiðslu og ekki síður vegna þess að frá því 1998 hafa ekki verið endurnýjaðir samningar við tannlæknastéttina þannig að sú gjaldskrá sem ákveðin er hefur ekki haldið í við verðhækkanir, verðlag hjá tannlæknum. Endurgreiðslan sem hlutfall af kostnaði hefur því farið sífellt minnkandi og það er alveg ljóst að versnandi tannheilsa barna og unglinga er að hluta til vegna þess að foreldrar hafa margir hverjir ekki efni á að sinna tannheilsu barna sinna eins og vera skyldi og vilji væri til þar sem kostnaðurinn er hreinlega of mikill.

Ég vil áður en ég kynni frumvarpið segja frá helstu niðurstöðum könnunarinnar, með leyfi forseta. Beðið var nokkuð eftir nýrri könnun því að könnun á tannheilsu barna og unglinga hafði ekki verið gerð síðan 1996 en það var alveg ljóst eftir viðtöl við tannlækna og það sem þeir höfðu látið frá sér heyra í kringum síðustu aldamót, að tannlæknar sögðust verða varir við að það væri breyting hvað varðaði tannheilsu barna og þeir yrðu varir við að fjölskyldur mættu ekki með börn sín til tannlæknis og eins að þau börn sem kæmu væru með meiri skemmdir og verri en áður. Könnunin sem nú var gerð staðfesti þann grun tannlækna, að hvort tveggja hafi verið rétt, að bæði hafi tannheilsan versnað og að nokkuð stór hluti barna fari ekki til tannlæknis.

Helstu niðurstöður í skýrslunni eru, með leyfi forseta:

„Í norrænum samanburði lætur nærri að íslensk börn og ungmenni séu að meðaltali með tvöfalt fleiri skemmdar tennur en samanburðarhópar í Svíþjóð (2005) og er staðan verri en á hinum Norðurlöndunum. Hjá 12 ára barni á Íslandi eru að meðaltali rúmlega 2 fullorðinstennur skemmdar og þarfnast viðgerðar eða hafa þegar verið fylltar. Meira er um skemmdir hjá stelpum en strákum. Hjá verst setta hópnum (33%) eru tæplega 5 tennur skemmdar.“ — Þetta er hjá 12 ára börnum. — „Hjá 15 ára unglingi eru að meðaltali rúmlega 4 fullorðinstennur skemmdar og þarfnast viðgerðar eða hafa þegar verið fylltar. Hjá verst setta hópnum (33%) eru að meðaltali 9 tennur skemmdar.

Glerungseyðing greinist í einhverri fullorðinstönn hjá 15% 12 ára barna og hjá 30% 15 ára unglinga. Tíðni tannskemmda fer vaxandi og áhyggjuefni hversu algengt það er að ekki er gert við tannskemmdir. Um 17% barna og ungmenna (4–18 ára) mæta ekki í reglubundið eftirlit hjá tannlækni. Fæst börn koma til tannlæknis á Vestfjörðum — flest í Skagafirði. TR greiðir umtalsvert minna vegna forvarna í tannheilbrigðismálum barna nú en árið 1998.“

Lokaskýrslan er í vinnslu hjá Lýðheilsustöð og ég vil árétta það sem ég held að ég hafi nefnt áður, að það er mikilvægt að fjármagn fáist til Lýðheilsustöðvar, Háskóla Íslands og þeirra sem staðið hafa að könnuninni en framkvæmd rannsóknar og fjármögnun var á ábyrgð Lýðheilsustöðvar, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Miðstöðvar tannverndar í faglegri samvinnu við tannlæknadeild Háskóla Íslands. Þeir aðilar þurfa auðvitað að fá fjármagn til þess að geta stundað þessar rannsóknir með reglubundnum hætti svo hægt sé að bregðast við og grípa inn í þar sem nauðsyn krefur. Uppi eru hugmyndir um að breyta eftirliti eða fara meira í forvarnir. Það er annað mál sem ég ætla ekki að fara nánar út í núna en frekari rannsóknir gætu verið frekari grunnur að breyttum áherslum ef út í það yrði farið.

Ég vil þá kynna frumvarpið en það er breyting á lögum um almannatryggingar eins og þær eru núna, þ.e. við 37. gr. sem segir svo, með leyfi forseta:

„Fyrir almenna tannlæknaþjónustu greiðir Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt samningum, sbr. 39. gr. Takist ekki samningar skv. 39. gr. er ráðherra heimilt að setja gjaldskrá. Gjaldskráin gildir bæði um tannlækningar sem starfræktar eru á vegum hins opinbera og annarra.

Greiðslur sjúkratrygginga skv. 1. mgr. skulu vera sem hér segir:

1. Fyrir almennar tannlækningar barna og ungmenna, 20 ára og yngri, 100 % kostnaðar.

2. Fyrir elli- og örorkulífeyrisþega, sem njóta tekjutryggingar, 100% kostnaðar.

3. Fyrir elli- og örorkulífeyrisþega, sem njóta ekki tekjutryggingar,“ — sem sé hafa einhverjar tekjur — ,,75% kostnaðar. Fyrir gullfyllingar, krónur, brýr og tannplanta gilda sérstakar reglur sem ráðherra setur. Heimilt er að hækka greiðslur fyrir þessa bótaþega í allt að 100% eftir reglum sem ráðherra setur.“

Frumvarp þetta var lagt fram á 131. og aftur á 132. löggjafarþingi lítið breytt og er nú endurflutt. Á 131. löggjafarþingi var gerð breyting á 37. gr. laga um almannatryggingar og við flutningsmenn fögnum auknum réttindum en hins vegar teljum við brýnt og eðlilegt að hlutfall greiðsluþátttöku sjúkratrygginga komi fram í lögum en ekki í reglugerð eins og fyrirkomulagið er nú. Að mínu mati eiga reglurnar að vera samsvarandi reglum í almannatryggingum um greiðslur lífeyrisgreiðslna, að vera bundið í lagatextanum hversu há endurgreiðslan eigi að vera o.s.frv. Ég tel að það eigi að vera alveg ljóst í textanum varðandi rétt til endurgreiðslu vegna tannlækninga, að það eigi ekki að vera hægt að hræra í þessu með breytingum á reglugerðum og draga úr réttindum eins og gert hefur verið.

Í frumvarpinu er lagt til að Tryggingastofnun ríkisins greiði fyrir almennar tannlækningar barna og ungmenna 20 ára og yngri, svo og fyrir almennar tannlækningar elli- og örorkulífeyrisþega. Kveðið verði á um form reikninga fyrir tannlæknaþjónustu í samningum við tannlækna eða gjaldskrá. Það er mikilvægt. Kostnaðarhlutdeild fjölskyldna hefur hækkað m.a. vegna þess að samningar hafa ekki tekist og það tel ég að sé mikill ljóður á okkar heilbrigðiskerfi að semja ekki við tannlækna og hækka gjaldskrá Tryggingastofnunar sem yrði í einhverju samræmi við það sem gildir á markaðnum þannig að endurgreiðslan sé í einhverju hlutfalli rétt við það sem meðaltannlæknir tekur fyrir almenna tannlæknaþjónustu.

Frá því að fyrri frumvörp voru lögð fram hefur greiðsluþátttaka Tryggingastofnunar ríkisins aukist og er það vissulega mikilvægt. Á 130. löggjafarþingi lögðu flutningsmenn þessa frumvarps fram tillögu til þingsályktunar um tannvernd barna og unglinga. Í henni var lagt til að tannvernd barna og unglinga til 18 ára aldurs yrði efld og sérstök tannvernd ákveðinna aldurshópa yrði hluti ungbarnaverndar og skólaheilsugæslu. Lagt var til að greiðsluþátttaka Tryggingastofnunar ríkisins fyrir almennar tannlækningar barna og unglinga að 18 ára aldri yrði 90%.

Ef ég hef skilið orð hæstv. heilbrigðisráðherra rétt, hennar fyrstu hugmyndir um það hvernig bregðast eigi við versnandi tannheilsu barna og unglinga, er þetta eitthvað í þá átt að taka út ákveðna aldurshópa og koma þeim í tannvernd. Hvort hæstv. ráðherra hefur þá hugmynd að láta þá aldurshópa vera hina sömu og fylgja þeim aldurshópum sem fara í skólaheilsugæsluna veit ég ekki, en mín hugmynd var sú að með því að hafa sömu aldurshópana gæti þetta verið hluti skólaheilsugæslunnar, að foreldrar væru minntir á rétt þeirra, að þegar barnið væri þetta gamalt ætti það rétt á að fara til tannlæknis og hvetja og minna foreldra á að nýta sér það.

Ég tel að það þurfi hreinlega að ganga lengra. Þingsályktunartillögu okkar var vísað til umfjöllunar í heilbrigðis- og trygginganefnd. Umsagnir um tillöguna voru í heild jákvæðar. Í þeim kom fram að nauðsynlegt væri talið að bæta tannheilbrigðiskerfið og auka greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins. Hins vegar þótti sú skipan sem tillagan gerði ráð fyrir nokkuð flókin í framkvæmd. Með hliðsjón af þeirri athugasemd er hér lögð fram einfaldari útfærsla og að Tryggingastofnun ríkisins greiði að fullu almennar tannlækningar fyrir 20 ára og yngri. Hugsanlega þykir mörgum nokkuð vel í lagt en með þessu erum við að bera okkur saman við það sem best gerist annars staðar á Norðurlöndunum. Ég tel að við eigum að gera það. Við erum efnuð þjóð og við eigum að huga að þessum þætti eins og öðrum sem lúta að forvörnum. Það að huga vel að tannheilsu barna og unglinga er nokkuð sem skilar sér út allt lífið, það er kostnaður sem skilar sér til baka. Ég tel því að það að fara að dæmi þeirra þjóða sem best gera sé fjárfesting til lengri tíma.

Hvað varðar tannheilbrigði aldraðra er ljóst að staða þeirra hefur breyst mikið á undanförnum árum. Það eru ekki margir áratugir liðnir síðan það þótti allt að því eðlilegt að börn fengju falskar tennur í fermingargjöf. Þau börn eru orðin fullorðin í dag og margir hverjir með lausa góma. Sem betur fer halda æ fleiri sínum tönnum og er annt um að halda þeim, en halda þeim ekki öllum og það er mjög kostnaðarsamt að fá úrbætur og festingar fyrir tannparta eða ísettar tennur. Það er því allt of mörgum ofviða að standa straum af slíkum aðgerðum þó að þær séu miklu betri en að fara út í þá aðgerð að láta rífa þær tennur sem þó eru heilar og fá lausa góma. Því miður gera það margir einfaldlega vegna þess að það er ódýrari leið. Það er ekki forsvaranlegt. Því leggjum við mikla áherslu á það að elli- og örorkulífeyrisþegar, sem njóta tekjutryggingar, fái endurgreiddan 100% kostnaðar við almennar tannlækningar en þegar komi að gullfyllingum, krónum og brúm og tannplöntum gildi aftur á móti sérstakar reglur sem ráðherra setur.

Hægt væri að hafa um þetta mörg orð en ég tel að með þeirri skýrslu sem var kynnt í gær og verður vonandi í fréttum og í umfjöllun eitthvað áfram átti fólk sig á því hver þróunin hefur verið. Fjölskyldur og einstaklingar finna það á eigin buddu hvað það er miklu dýrara að fara til tannlæknis og sinna þeim þætti vel. Það þarf því ekki að benda fólki á það en það þarf að finna leiðir til þess að stunda hér eðlilega tannheilbrigðisþjónustu. Ég held að það verði ekki gert nema að ganga eins langt og um getur í frumvarpinu og þá erum við ekki að ganga neitt lengra en Norðurlöndin gera.

Ég vil þó aðeins af þessu tilefni fá að nefna forvarnir því að fyrir utan tannátu er annar sjúkdómur sem gætir sérstaklega hjá unglingum. Það er glerjungsáta og glerjungseyðing sem stafar aðallega af gosdrykkjaþambi eða af kolsýrðum drykkjum. Þá leyfir maður sér að segja „gosdrykkjaþambi“ því að það er alveg ótrúlega mikil drykkja á kolsýrðum drykkjum hjá mörgum unglingum. Þetta er nýr sjúkdómur hjá unglingum sem hefur varanlegar skemmdir í för með sér. Því er mjög mikilvægt að fræðsla um skaðsemi kolsýrðra drykkja sé þekkt og hvatt sé til vatnsdrykkju. Það verður líka að segjast að gosdrykkir eru mjög ódýrir hér á landi og eiga eftir að lækka við breytingu á virðisaukaskatti á matvælum. Það má því vera verulega á varðbergi ef breytingin á virðisaukaskattinum verður til þess að það verður veruleg lækkun á gosdrykkjum því að gosdrykkjaþambið hefur það alvarleg áhrif á tennurnar að það hefur mikinn kostnað í för með sér. Þeir sem hafa þar að auki ekki efni á að fara til tannlæknis munu ekki bíða þess bætur það sem eftir er ævinnar því að þeir munu missa tennur sínar.

Þetta er þáttur sem fæstir unglingar gera sér grein fyrir. Áhrifin koma fram síðar og koma þá niður á heilbrigðisþjónustunni og heilbrigðisútgjöldunum en glerungseyðing er algengur sjúkdómur hjá unglingum. Það þarf því að stórbæta aðkomu Tryggingastofnunar ríkisins, almannatrygginga, greiðsluþátttöku þeirra. Ég hvet hæstv. heilbrigðisráðherra, hæstv. fjármálaráðherra, Tryggingastofnun og tannlækna að ganga frá nýjum samningi milli tannlækna, Tryggingastofnunar og ráðuneytis þannig að gjaldskráin verði nær raunverulegum töxtum en þeir eru í dag.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en óska eftir því að málinu verði vísað til 2. umr. og til hv. heilbrigðis- og trygginganefndar.