Skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra

Þriðjudaginn 06. febrúar 2007, kl. 15:35:57 (4328)


133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[15:35]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var á fundum félagsmálanefndar þegar þetta mál var rætt á sínum tíma alveg eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir. Ég man vel, og ég hygg að hún muni það jafn vel og ég, á hvaða æðibunugangi málið var afgreitt í gegnum nefndina. Ef ég man rétt var mælt fyrir þessu máli í vor eitthvað í kringum 20. apríl. Það var afgreitt úr nefndinni viku síðar og var orðið að lögum þá. Einn, tveir, þrír og málið búið eða hvað? Það lá svo mikið á að við fengum ekki að kalla á fund nefndarinnar verkalýðsforingja víðs vegar að af landinu sem allir höfðu skilað inn mjög gagnrýnum umsögnum um löggjöfina um frjálsa för launafólks. Ég hygg að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir muni mætavel eftir þeim umsögnum. Við fórum yfir þær allar, lásum þær hverja og eina, og þær voru allar í hróplegri andstöðu við niðurstöðu ASÍ. Það er bara þannig. Þetta er allt saman til skjalfest.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir bendir á. Stjórnarandstaðan fékk það þó í gegn að loforð yrði gefið af hálfu ríkisstjórnarinnar þess efnis að stefna skyldi liggja fyrir 1. október. Stjórnarandstaðan, þ.e. Samfylking og Vinstri grænir, fór fram á að þessu yrði frestað a.m.k. fram að áramótum. Við í Frjálslynda flokknum tókum fyrir það fyrsta þá afstöðu að ekki væri hægt að treysta því að ríkisstjórnin stæði við gefin loforð. Það kom á daginn að það var heldur ekki hægt að treysta því. Þessi stefnumótun var fyrst núna að koma fram, hálfu ári eftir að hún átti að vera tilbúin.

Það var talað um frestun fram að áramótum. Ég hygg að það hefði verið allt of stuttur tími til þess að gera þær nauðsynlegu breytingar og fara út í þann undirbúning sem þurft hefði. Við tókum hreinlega þá afstöðu í vor að vera á móti málinu, mótmæla því hástöfum og segja að við hefðum frekar átt að fara fram á frest til 2009 og 2011 og síðan einhenda okkur í þá vinnu sem svo augljóslega blasti við að við yrðum að fara í.