Skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra

Þriðjudaginn 06. febrúar 2007, kl. 15:48:21 (4332)


133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[15:48]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er að mörgu leyti mjög sammála greiningu hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Það er kannski eitt atriði sem ég annaðhvort skil öðruvísi en hv. þingmaður eða við höfum ekki sömu sýn á.

Með því að nýta okkur ekki fyrirvarann síðastliðið vor eða framlengja hann til áramóta, eins og hv. þingmaður vildi leggja til, höfðum við ekki lengur vald á því að stýra flæði fólks inn í landið. Erlent fólk gat komið til landsins og ég hef haft spurnir af því, af því að ég þekki sæmilega til, að fólk kemur til landsins með ferðatöskuna sína og ákveður að leita sér að vinnu, hefur meira að segja verið á puttaferðalagi frá Austfjörðum til Reykjavíkur til að leita sér að vinnu.

Hin hliðin á þessu máli, sem er alveg rétt og hv. þm. Ögmundur Jónasson vék að áðan, eru starfsmannaleigurnar. Það er akkúrat eins og hann lýsti því. Það var auðvitað hætta á því að við fengjum flóð í gegnum starfsmannaleigurnar en við opnunina gátum við ekki lengur haft yfirsýn yfir hvaða fólk kom hingað á eigin vegum og gat ráðið sig til vinnu. Það hefur auðvitað verið að gerast.

Ég vil líka segja í lok þessarar stuttu athugasemdar minnar að það gekk orðið mjög vel hjá Vinnumálastofnun að afgreiða atvinnuleyfi fyrir 1. maí á síðastliðnu vori. Við sjáum það bara á afgreiðslu leyfanna að það gekk virkilega hratt þó að við værum með þessa galla.