Skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra

Þriðjudaginn 06. febrúar 2007, kl. 15:55:05 (4336)


133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[15:55]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir umræðuna um þetta frumvarp, því er almennt vel tekið í þessari umræðu og það er að sjálfsögðu vel. Þetta mál er eitt af fjölmörgum málum sem hefur verið unnið að og er unnið að sem snerta erlent vinnuafl og innflytjendur almennt og það er ekki síst til þess fallið að treysta innviði vinnumarkaðarins og viðhalda eðli hans sem er auðvitað mikilvægt.

Það er góð samstaða um þetta mál meðal aðila vinnumarkaðarins og þeirra sem komu að gerð frumvarpsins. Það er mjög mikilvægt og treystir málið að sjálfsögðu. Mér er ekki kunnugt um, af því að spurt var um það áðan, atriði í því sem ágreiningur var um. Hins vegar hygg ég að það hafi kannski verið mismunandi skoðanir á einhverjum atriðum en það sem skiptir meginmáli er að mjög góð samstaða er um málið meðal aðila vinnumarkaðarins og að hér er verið að færa ýmis mál til betra horfs en verið hefur og byggir það m.a. á fenginni reynslu.

Ég ætla að reyna að svara einhverjum af þeim spurningum sem til mín var beint í umræðunni. Rætt var um stöðu Vinnumálastofnunar, hvort hún hefði burði til að taka við þeim verkefnum sem frumvarpið felur i sér. Vinnumálastofnun er í raun þegar byrjuð að móta verklag vegna þessa frumvarps og þar nýtur stofnunin þess að hafa áður mótað verklag vegna framkvæmdar laganna um starfsmannaleigur á síðasta ári og í þessu tilfelli verður um svipað fyrirkomulag að ræða. Það er mat manna að fjárveitingar sem liggja fyrir eigi að nægja stofnuninni til að standa undir þessum verkefnum.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir beindi til mín nokkrum spurningum sem ég ætla að leitast við að svara eftir bestu getu.

Fyrst um eftirlitsþáttinn, um að skylda fyrirtækin til að veita upplýsingar. Þá eru menn að velta fyrir sér hverju er verið að breyta í sambandi við skyldur erlendra fyrirtækja til að veita upplýsingar. Því er til að svara að hér er verið að skýra skyldur fyrirtækjanna til að veita upplýsingar um ráðningarkjör og fleira en fram að þessu hefur sá þáttur ekki verið nógu skýr, það er verið að leitast við að skýra það með þessu frumvarpi.

Spurt var um fulltrúa fyrirtækja hér á landi, hvernig eigi að framkvæma það og hver beri kostnaðinn. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að það sé mál viðkomandi fyrirtækja að sjá til þess að fulltrúar þeirra séu hér og að viðkomandi fyrirtæki beri kostnað af því.

Þá velti hv. þingmaður fyrir sér lögunum um starfsmannaleigur, hvers vegna þetta ákvæði fari ekki inn í lög um starfsmannaleigur. Því er til að svara að í 21. gr. frumvarpsins er einmitt kveðið á um ákveðnar breytingar á lögum um starfsmannaleigur. Ég vísa til þess í þessu sambandi.

Varðandi undirboð þá var því velt upp hvort verið væri að leggja skyldur á notendafyrirtæki til að tryggja að útsendir starfsmenn njóti eðlilegra kjara. Í frumvarpinu er fyrst og fremst verið að beina spjótunum, ef við getum orðað það svo, að þjónustufyrirtækjunum sjálfum, um að þau veiti þær upplýsingar sem kveðið er á um í frumvarpinu að þau skuli veita.

Síðan var fjallað um búsetumál útlendinga sem minnst var á í nokkrum ræðum. Þetta er mál sem við þekkjum og var rætt á síðasta ári. Ég skipaði starfshóp í lok síðasta árs til að fara sérstaklega yfir þau mál og markmiðið var að hann lyki störfum í lok janúar. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef er starfshópurinn u.þ.b. að ljúka störfum og ég vænti þess að það verði sem allra fyrst því að þetta er mikilvægt mál. Mér skilst að starfshópurinn muni leggja til einhverjar breytingar á lögum um lögheimili, þó að ég hafi ekki fengið þær tillögur í hendur og get ég því ekki fjallað um þær frekar á þessari stundu.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir vitnaði í fyrirspurn sem hún hefði lagt fyrir félagsmálaráðherra um erlenda ríkisborgara á vinnumarkaði og velti því upp hvort við værum nógu vel stödd varðandi tölulegar upplýsingar um þau mál. Ég held að það sé margt til í því að við þurfum að bæta þar úr. Það er að sjálfsögðu eitt af þeim verkefnum sem fyrir okkur liggja en ég vonast til að svarið komi sem allra fyrst og mun athuga það mál eftir að þessari umræðu lýkur. En ljóst er að þetta frumvarp mun hjálpa okkur til að halda utan um þær upplýsingar sem við erum að fjalla um hér.

Síðan velti hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir einnig fyrir sér hvernig eftirliti með kjörum starfsmanna er háttað þegar um útboðsmál er að ræða, og það kom fram í fleiri ræðum, hygg ég. Hún spurði einnig hvort við hefðum orðið vör við einhvern misbrest á þessu og hvernig brugðist hafi verið við. Vinnumálastofnun hefur eflt mjög samstarf við verkalýðshreyfinguna og Vinnueftirlitið. Mér skilst að hafi menn orðið varir við einhver slík mál hafi Vinnumálastofnun leitast við að bregðast við þeim með þeim tækjum sem stofnunin hefur í lögum og reglum en markmið þessa frumvarps er að styrkja það.

Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson velti upp nokkrum málum. Ég hygg að ég hafi svarað nokkrum þeirra þegar, en hann velti m.a. fyrir sér hvað gerðist ef fyrirtæki veita ekki þær upplýsingar sem þeim ber. Sem svar við því vísa ég í 15. gr. frumvarpsins þar sem fram koma ákveðin viðurlagaákvæði er það varðar og ætla ég ekki að lesa það upp sérstaklega.

Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson velti fyrir sér af hverju verkalýðsfélög fá ekki heimild til eftirlits og aðgangs að ráðningarsamningum. Ég hygg að það megi segja að hér sé um að ræða samkomulagsmál aðila vinnumarkaðarins hvort slíkt ætti að vera við lýði en í þessu frumvarpi er samkomulag aðila vinnumarkaðarins um eftirlit og hvernig því skuli vera háttað og full samstaða um það.

Loks var fjallað um stefnu ríkisstjórnarinnar í aðlögun innflytjenda, hvernig Alþingi ætti að koma að umræðu um það. Ég hef lýst því yfir að að sjálfsögðu eigi að leggja þetta mál upp til umræðu á Alþingi og ég vænti þess að fá tækifæri til þess sem fyrst. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson nefndi t.d. þann kost að leggja málið fram sem skýrslu til umræðu. Það kemur vel til greina en í hvaða formi sem málið verður þá vænti ég þess að við fáum tækifæri til að ræða þessi mikilvægu mál, innflytjendamálin, sem fyrst á Alþingi.