Skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra

Þriðjudaginn 06. febrúar 2007, kl. 16:03:43 (4337)


133. löggjafarþing — 66. fundur,  6. feb. 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[16:03]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Nú hefur hæstv. félagsmálaráðherra hlýtt hér á athugasemdir þingmanna og umræður um málefni erlends fólks á vinnumarkaðnum. Það hafa fleiri gert og orðið vitni að málflutningi okkar í Frjálslynda flokknum. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geti tekið undir þau orð samþingmanns síns úr Framsóknarflokknum, hv. þm. Sæunnar Stefánsdóttur, þar sem hún sakar hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson um hatur á útlendingum og að ala á andúð og segir að það hafi komið greinilega fram í ræðu á landsþingi Frjálslynda flokksins. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geti tekið undir þessi orð og fundið þeim einhvern stað í ræðu hans eða fundið þeim einhvern stað í þeirri umræðu sem hefur farið fram hér. Það væri fróðlegt að heyra hvort hæstv. ráðherra getur tekið undir þessi orð hv. þm. Sæunnar Stefánsdóttur. Ef hann gerir það væri sjálfsagt að hann tilgreindi einhver dæmi um hatur eða andúð Frjálslynda flokksins í garð fólks af erlendu bergi brotnu. Ef ekki, þá eru þetta bara ómerkilegar dylgjur hv. þm. Sæunnar Stefánsdóttur.