Málefni Byrgisins

Mánudaginn 12. febrúar 2007, kl. 15:08:51 (4499)


133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

málefni Byrgisins.

[15:08]
Hlusta

Jón Kristjánsson (F):

Virðulegi forseti. Hér er um mikið hörmungarmál að ræða og hefur verið mjög talað um skýrslu frá 2002 sem plagg í þessu máli. Ég vil fara með niðurstöðuna í skýrslunni sem sýnir hvað menn voru blekktir á sínum tíma af þessu máli. Hér segir, með leyfi forseta:

„Byrgið þjónar þörf í þjóðfélaginu og mikilvægt er að starfsemin sé færð til félags- eða heilbrigðisráðuneytis og þannig gert kleift með styrkjum og að uppfylltum skilyrðum um fjármálastjórn að sinna aðstoð við þá áfengis- og vímuefnaneytendur sem verst eru settir. Þróttur og þrautseigja hefur einkennt framgang starfsmanna Byrgisins og er slíkt bæði virðingarvert og aðdáunarvert.“

Þetta stendur í skýrslunni og það er gott að vera vitur eftir á. Hins vegar hafa menn axlað ábyrgð í málinu. Allir sem komu að því voru blekktir. Við vorum blekkt sem fórum með stjórn á þeim tíma og stjórnarandstaðan var einnig blekkt. Þeir sem töluðu fyrir málinu voru blekktir.

Málið er allt mikið hörmungarmál en nú er aðalatriðið, eins og hæstv. forsætisráðherra sagði áðan, að taka á því. Félagsmálaráðherra hefur gert það. Hann skrifaði Ríkisendurskoðun um málið áður en þessi hörmungartilvik komu í dagsins ljós og greiðslur til Byrgisins voru stöðvaðar. Nú er aðalatriðið að hjálpa skjólstæðingum Byrgisins til þess að takast á við lífið. Það skiptir mestu máli.

Það sem stendur upp úr í þessu er að allir sem hlut eiga að máli voru blekktir og það skiptir mestu máli að takast á við þær afleiðingar.