Málefni Byrgisins

Mánudaginn 12. febrúar 2007, kl. 15:11:12 (4500)


133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

málefni Byrgisins.

[15:11]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það sem er alvarlegast í þessu máli er að fólk sem á við þau vandamál og þá erfiðleika að stríða, sem við erum að fjalla um, og var vistað eða sett til meðferðar í Byrginu skuli ekki hafa fastari og öruggari meðferð og ábyrgð af samfélagsins hálfu. Að við, ríkisstjórnin, Alþingi, skulum velja þann kost að bjóða út eða kaupa aðra til að annast slíka þjónustu eftirlitslítið eins og raun ber vitni. Það er hið daprasta. Ég heyri ekki enn minnst á að breyta eigi því fyrirkomulagi, að við öxlum hina samfélagslegu ábyrgð á meðborgurum okkar í þessu tilviki undanbragðalaust, ekki bara á því fólki sem hefur dvalið í Byrginu heldur líka því fólki sem nú á í hliðstæðum vanda og mun eiga í hliðstæðum vanda. Við eigum að axla ábyrgð á slíkri starfsemi en ekki vera að bjóða hana út til einstaklinga, fyrirtækja eða einkaaðila. (EOK: … tillögu um að láta enn þá meiri peninga …) Það er alveg hárrétt hjá Einari Oddi Kristjánssyni, varaformanni fjárlaganefndar og þingmanni Sjálfstæðisflokksins.

En ég er hér með heila skýrslu (Sjútvrh.: Lestu ræðurnar þínar.) (Gripið fram í: … sem þú ert búinn að segja um þetta mál …) sem var leynd fjárlaganefnd. Það má vel vera að varaformaður fjárlaganefndar hafi fengið vitneskju um hana (Gripið fram í.) en það er ekki rétt, — frú forseti, viltu þagga niðri í honum — að fjárlaganefnd hafi vitað um þetta og það er hið daprasta að meira að segja forsætisráðherra reynir opinberlega að koma sökinni yfir á stjórnarandstöðuna, að hún hafi barist fyrir fjármagni til þessa verkefnis. Það er rétt, til málaflokksins, en við bárum ekki ábyrgð á þeim leyniskýrslum, skýrslum sem forsætisráðherra og utanríkisráðherra tóku þá ákvörðun að birta ekki fjárlaganefnd, frú forseti, og það er alvara málsins.