Málefni Byrgisins

Mánudaginn 12. febrúar 2007, kl. 15:20:06 (4505)


133. löggjafarþing — 69. fundur,  12. feb. 2007.

málefni Byrgisins.

[15:20]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Tilefni þessarar umræðu er ummæli hæstv. forsætisráðherra í sjónvarpsviðtali í gær þar sem hann segir að myndast hafi ákveðin pólitísk histería í tengslum við málefni Byrgisins. Er svo að skilja að hann vilji þar með skella skuldinni á stjórnarandstöðuna fyrir þá óreiðu sem var í Byrginu og hvernig ríkisvaldið brást gagnvart almenningi í þessari stofnun.

Ég hef aldrei farið dult með það að ég var í hópi þeirra sem hvöttu til fjárútláta til Byrgisins úr þessum ræðustól á sínum tíma. Ég sagði jafnframt að ég þekkti ekki rækilega til málefna þessarar stofnunar. Menn geta hins vegar kallað það histeríu að hafa þungar áhyggjur af málefnum heimilislauss fólks og vilja skjótar úrbætur í því efni. Það sem málið hins vegar snýst um í þessum þingsal hér og nú og í umfjöllun Alþingis er hvernig hafi verið farið með þær skýrslur og þau varnaðarorð sem bárust inn til stjórnsýslunnar og þar með ríkisstjórnarinnar þar sem fjárveitingavaldið var varað við því sem þarna var að gerast.

Mér finnst það svolítið ódýrt í þessu máli að ætla að skella skuld á stjórnarandstöðuna en ég hef margoft látið það koma fram í ræðu og riti um þetta málefni að undanförnu að ég var í hópi þeirra sem hafði trú á því að það væri verið að sinna málum á (Forseti hringir.) viðunandi hátt í þessari stofnun. Síðan hefur annað komið í ljós og það átti ríkisstjórnin að vita á sínum tíma (Forseti hringir.) af lestri þeirra plagga sem komu inn á hennar borð. Þar liggur ábyrgðin.