Veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald

Mánudaginn 19. febrúar 2007, kl. 21:10:18 (5057)


133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

588. mál
[21:10]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Herra forseti. Hæstv. samgönguráðherra hefur flutt frumvarp til laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Ekki er annað hægt en að taka undir það sem sagt er í athugasemdum um þetta lagafrumvarp, sem er markmiðslýsingin. Þar segir, með leyfi forseta:

„Megintilgangur frumvarpsins er að einfalda leyfisveitingar til reksturs veitinga- og gististaða og draga úr þeim fjölda leyfa, gagna og umsagna sem umsækjendur þurfa nú að afla til að hefja slíkan rekstur. Þá er einnig lagaumhverfi fyrir þessa starfsemi gert einfaldara og skýrara með því að kveða á um leyfisveitingar í því sem næst einum lagabálki í stað margra.“

Virðulegi forseti. Ég vil gera smáfyrirvara við mál mitt. Ég hef ekki farið yfir allar greinar þessa frumvarps. Það var annar fulltrúi Samfylkingarinnar í samgöngunefnd sem hafði það verkefni en hann þurfti að fara út á land á fund. Ég hef því ekki lesið þetta algjörlega í gegn. En miðað við þá athugasemd sem kemur fram í fyrsta kafla og ef markmiðslýsingin um allt annað í þessu frumvarpi er á þennan veg sé ég ekki annað en þetta sé hið besta mál. Það er verið að einfalda þann skóg leyfa sem þarf til þess að hefja starfsemi af þessu tagi, eða endurnýja leyfi til hennar.

Það þarf að fá byggingarleyfi sem fer í gegnum byggingar- og skipulagsnefnd og væntanlega byggingarfulltrúa. Það þarf starfsleyfi sem fer í gegnum heilbrigðisnefnd og hægt er að kæra til umhverfisráðherra. Tóbakssöluleyfi sem er á verkssviði heilbrigðisnefndar og hægt er að kæra til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Veitingaleyfi sem lögreglustjórar veita og fjalla m.a. um fjárráð og forræði bús sem heyrir undir samgönguráðherra og má ábyggilega kæra þangað líka. Svo kemur áfengisvarnaleyfi sem lögreglustjórar og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna annast og sveitarstjórn gefur út og má ábyggilega kæra til dómsmálaráðherra. Síðast en ekki síst er það skemmtanaleyfi, en sækja þarf um sérskemmtanaleyfi eftir því hvort skemmtanir eru lengur en til kl. 23.30 eða eitthvað öðruvísi en það. Sinni lögreglustjóri slíku leyfi má kæra ákvörðunina til dómsmálaráðherra.

Virðulegi forseti. Með fyrirvara um ýmsar aðrar greinar er þessi lagahreinsun, ef svo má að orði komast, eða lagabreyting, hið besta mál. Þetta er sett saman í einu frumvarpi frekar en að staga í mörg önnur lög um þessi atriði. Það er líka til bóta, og dálítið skrýtið að það skuli ekki hafa verið komið á áður, að hægt sé að sækja um þessi leyfi á rafrænan hátt. Það þarf ekki að orðlengja þetta frekar. Það kemur fram í III. kafla, og er ákaflega vel sett upp, hvað verið er að gera. Helstu breytingar eru settar upp í einum sex til átta liðum, og staðfestir það sem áður hefur verið sagt um einfaldleikann.

Ég setti ákveðinn fyrirvara við mál mitt og vil í því sambandi nefna 5. gr. Mér sýnist að verið sé að rýmka örlítið reglur um dvöl ungmenna yngri en 18 ára á veitingastað sem hefur áfengisleyfi. Ég ætla ekki að efna til mikilla umræðna um það í sjálfu sér. Ég hygg að okkar í samgöngunefnd bíði að fá umsagnir og álit frá ýmsum sem ekki vilja mikið hreyfa við þeim málum. En það er dæmi um tvískinnung að 18 ára unglingur megi koma inn á veitingastað þar sem áfengi er selt en megi ekki kaupa það eða drekka það þar. Ég þori ekki að ræða frekar þessa 5. gr. af ótta við að espa fólk upp til umræðna.

En aðeins varðandi 17. gr., um tækifærisleyfi. Ég held að það heiti svo, já, tækifærisleyfi. Það er, eins og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson gat um áðan, leyfi sem hægt er að sækja um vegna útihátíða og annarra menningarviðburða sem haldnir eru vítt og breitt um landið. Þar er höfuðborgin Reykjavík meðtalin en þar fer menningarnótt fram. Ég hef gaman af að benda á þá mismunun sem er á mörgum sviðum og segi því enn og aftur frá því þegar við héldum síldarævintýri á Siglufirði á fyrstu árunum. Aðsóknin var mikil en það var kostnaður sveitarfélaganna, hvað þau þurftu að borga mikið með síldarævintýrinu, sem gerði útslagið. Það var svo sem ekkert sem við sáum eftir, það var meðvituð ákvörðun um markaðssetningu. En ég minnist þess hvað mönnum fannst blóðugt þegar reikningurinn kom frá sýslumanni fyrir löggæslukostnaði á viðkomandi hátíð.

Síðan ætla ég að setja þetta í samhengi og benda á aðstöðumuninn sem er til staðar. Þegar Reykjavíkurborg heldur menningarnótt þarf dálítinn fjölda lögreglumanna til en Reykjavíkurborg greiðir ekkert fyrir þann löggæslukostnað. Ég er ekki að kalla eftir því að Reykjavíkurborg verði endilega rukkuð, en ég kalla eftir jafnræði milli sveitarfélaga og milli þeirra sem halda menningartengdar hátíðir, sama hvort þær heita færeyskir dagar, síldarævintýri, menningarnótt eða annað. Það hlýtur að eiga að gæta jafnræðis á milli aðila, sama hvað hátíðin heitir og sama hvar hún er haldin.

Virðulegi forseti. Í samgöngunefnd, þar sem ég sit, verður farið yfir þetta mál sem er töluvert stórt. Þetta er stórt frumvarp upp á einar 36–37 blaðsíður. Vonandi er blaðsíðufjöldinn til vitnis um það hve mikið þarf að hreinsa til, lagfæra og einfalda. Í lögunum sem út úr þessu koma verða blaðsíðurnar vonandi færri en þær eru nú í öllum þeim lagabálkum sem fjalla um þessi mál.