Málefni aldraðra

Mánudaginn 19. febrúar 2007, kl. 22:04:38 (5071)


133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

málefni aldraðra.

559. mál
[22:04]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst það bara hneyksli þegar fólk sem er orðið fullorðið og þarf aðstoð til að búa heima, fær ekki viðunandi þjónustu. Þannig er það því miður í dag. Það er fjöldi fólks heima, annaðhvort að bíða eftir að komast inn á hjúkrunarheimili eða þá að það er að reyna að vera heima hjá sér og vill vera heima eins lengi og það getur. Það fær ekki þjónustu við hæfi. Það fær allt of litla þjónustu. Það getur kannski verið heima af því að ættingjarnir hjálpa þeim.

Ég er alveg sammála því að það á að færa málaflokkinn yfir til sveitarfélaganna. Það er stefna Samfylkingarinnar. Við höfum talað fyrir því og þannig á þetta auðvitað að vera. Þetta er nærþjónusta og hún á að vera á einni hendi. Annars er þessi þjónusta bara ekki viðunandi.

En ég spyr hæstv. ráðherra: Telur hún dæmið sem ég nefndi áðan viðunandi, um 96 ára konu sem er að reyna að vera heima, að hún fái fimm mínútur á morgnana og fimm mínútur á kvöldin, bara til að vera háttuð og klædd? Ég veit að hæstv. ráðherra er sammála (Forseti hringir.) mér um að sveitarfélögin standa sig ekki sem skyldi. En ríkið, hvernig stendur það sig?