Málefni aldraðra

Mánudaginn 19. febrúar 2007, kl. 22:11:50 (5076)


133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

málefni aldraðra.

559. mál
[22:11]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er bara ekkert merkileg yfirlýsing. Þetta eru upplýsingar úr skýrslu Ríkisendurskoðunar sem allir þingmenn hafa getað lesið, hægri eða vinstri ef þeir hafa viljað, frá október árið 2005. Þar stendur þetta svart á hvítu. Þegar reiknaðir eru upp tímarnir sem fara í félagslega heimaþjónustu fyrir aldraða hjá sveitarfélögunum, þá stendur Reykjavíkurborg í stað á meðan öldruðum hefur væntanlega fjölgað. Þannig að Reykjavíkurborg er þá væntanlega að draga hlutfallslega úr þjónustunni. Og Framsóknarflokkurinn átti aðild að því.

Þetta var undir forustu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, sem ætlar núna að reyna að slá í gegn með einhverjum yfirboðum. En undir forustu hennar í Reykjavík á árunum 1999–2003 var hlutfallslega dregið úr félagslegri heimaþjónustu.

Það eru Kópavogur, Garðabær, Seltjarnarnes, Reykjanesbær og Ísafjörður, sem eru tilgreind sérstaklega í skýrslunni. En þar eru ekki tilgreind öll sveitarfélögin. Það er örugglega hægt að fá upplýsingar um það. Svo eru tilgreind sveitarfélög sem hafa aukið.

Það eru því þessi ríku og sterku sveitarfélög hér á höfuðborgarsvæðinu, mörg þeirra, sem hafa dregið úr þjónustu sinni við aldraða. Sveitarfélögin sjálf. Það finnst mér grafalvarlegt.