Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

Mánudaginn 26. febrúar 2007, kl. 18:11:19 (5394)


133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[18:11]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 962, 644. mál, en þar er um að ræða breytingu á lögum nr. 13/1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna, og lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

Breytingar þessar lúta að því að styrkja opinbert eftirlit með því að sjómenn séu ekki látnir taka þátt í kaupum útgerða á aflaheimildum. Með lögum nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, er kveðið á um að óheimilt sé við hlutaskipti að draga frá heildarverðmæti afla, kostnað við kaup á veiðiheimildum. Þetta ákvæði er einnig að finna í kjarasamningum Samtaka sjómanna og útvegsmanna og þar er einnig mælt fyrir um að útgerð og áhöfn skuli gera sín í milli samning um fiskverð þegar afli er seldur til aðila sem telst skyldur útgerðinni en með því er átt við að útgerð og fiskvinnsla séu í ráðandi eigu sömu aðila.

Í lögum nr. 13/1998 er síðan kveðið á um að útgerð skuli senda Verðlagsstofu skiptaverðs án tafar alla samninga um fiskverð sem gerðir eru milli útgerðar og áhafnar. Verðlagsstofa skiptaverðs starfar samkvæmt ákvæðum laga nr. 13/1998 og er hlutverk hennar, eins og þar segir, að fylgjast með fiskverði og uppgjöri á aflahlut sjómanna og stuðla að rétti og eðlilegu uppgjöri á aflahlut sjómanna, eins og það er orðað í lögunum.

Mikilvægur liður í því eftirliti er að fylgjast með því að útgerðir láti sjómenn ekki taka þátt í kvótakaupum. Til að sinna hlutverki sínu eru Verðlagsstofu fengnar víðtækar heimildir í lögum nr. 13/1998, til að krefjast upplýsinga og gagna frá útgerðum, sjómönnum og ýmsum öðrum aðilum og stofnunum. Þá er í 15. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, kveðið á um að Fiskistofa skuli ekki staðfesta flutning aflamarks til fiskiskips nema Verðlagsstofa skiptaverðs hafi áður staðfest að fyrir liggi samningur hlutaðeigandi útgerðar og áhafnar um fiskverð sem uppfyllir kröfur sem Verðlagsstofa gerir samkvæmt ákvæðum laga nr. 13/1998. Tilgangur þessa ákvæðis er að koma í veg fyrir að útgerð geti keypt aflamark og flutt það til skips og látið skipverja taka þátt í kostnaði af þeim kaupum með því að miða uppgjör við lægra fiskverð en heimilt er samkvæmt ákvæðum laga nr. 13/1998. Þessi krafa um að fyrir liggi samningur útgerðar og áhafnar um fiskverð veitir mikilvægt aðhald þar sem hlutaðeigandi skipverjar geti alltaf krafist þess að gert sé upp við þá samkvæmt þeim samningi.

Samtök sjómanna og útvegsmanna hafa þó bent á að nokkur brögð séu að því að einstakar útgerðir geri samninga um fiskverð og áhafnir og sendi þá til Verðlagsstofu skiptaverðs til að uppfylla framangreind skilyrði til að geta flutt aflamark til skipa sinna en geri síðan upp við áhafnir á lægra verði en samningarnir mæla fyrir um. Fulltrúar umræddra samtaka segja að reynslan sýni að hlutaðeigandi sjómenn geri alls ekki alltaf þá kröfu að gert sé upp við þá samkvæmt fiskverðssamningum og því komist þessar útgerðir upp með að láta þá taka þátt í kostnaði af kvótakaupum. Samtök útvegsmanna og sjómanna telja nauðsynlegt að Verðlagsstofa skiptaverðs leggi meiri áherslu á rannsókn og eftirfylgni slíkra mála og að stofan fái til þess virkari heimildir og úrræði en hún hefur nú.

Með þessu lagafrumvarpi er brugðist við fyrrnefndum ábendingum. Verði ákvæði frumvarpsins að lögum mun Verðlagsstofa skiptaverðs leggja aukna áherslu á að fylgjast með því að útgerðir fiskiskipa geri upp við áhafnir í samræmi við fiskverðssamninga sem þær hafa gert og sent Verðlagsstofu. Þá er í frumvarpinu kveðið á um að Verðlagsstofa skuli ekki staðfesta fiskverðssamning gagnvart Fiskistofu ef athugun hennar hefur leitt í ljós að ekki hafi verið gert upp við áhöfn í samræmi við samning nema uppgjörið hafi verið leiðrétt. En slík staðfesting Verðlagsstofu er, eins og fyrr sagði, forsenda þess að aflamark verði flutt til fiskiskips.

Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að hið sama gildi ef útgerð hefur ekki látið Verðlagsstofu í té upplýsingar eða gögn sem hún hefur krafist til að hafa eftirlit með að réttilega sé gert upp við skipverja. Með umræddum ákvæðum fær Verðlagsstofa mun virkari úrræði en hún hefur nú til að knýja útgerðir til að láta henni í té upplýsingar og gögn sem eru nauðsynleg til að ganga úr skugga um að gert hafi verið upp við áhafnir í samræmi við lög og samninga og ef tilefni er til og þörf krefur til að knýja á um leiðréttingu uppgjörs til samræmis við gilda fiskverðssamninga.

Hæstv. forseti. Tilgangur þessa lagafrumvarps er, eins og ég hef ítrekað áður sagt, fyrst og fremst sá að bæta opinbert eftirlit með því að farið sé að lögum og samningum sem banna að sjómenn séu látnir taka þátt í kvótakaupum útgerða. Slík háttsemi er skýlaust brot gagnvart þeim sjómönnum sem í hlut eiga og er því ólíðandi. En hún er einnig óþolandi fyrir alla þá heiðarlegu útgerðarmenn sem virða lög og gerða samninga í hvívetna. Þá er ólögtæk þátttaka sjómanna í kvótakaupum til þess fallin að stuðla að hærra verði á aflaheimildum og geta víst flestir verið sammála um að þau áhrif eru afar óæskileg. Ég tel því mikilvægt að frumvarp þetta fái framgang og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og umfjöllunar hjá hv. sjávarútvegsnefnd.