Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

Mánudaginn 26. febrúar 2007, kl. 21:51:35 (5422)


133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[21:51]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. sjávarútvegsráðherra sagði að það væri ekkert sem bannaði hina svokölluðu vistun aflaheimilda. Þá spyr ég hæstv. sjávarútvegsráðherra: Hvar getur maður lesið að það sé leyft? Og hvers vegna eru aflaheimildir sem eru með þessum hætti kallaðar vistun? Hvers vegna eiga þær ekki undir eftirfarandi málsgrein:

„Áður en Fiskistofa staðfestir flutning aflamarks til fiskiskips skal stofnunin fá staðfestingu Verðlagsstofu skiptaverðs um að fyrir liggi samningur útgerðar og áhafnar um fiskverð til viðmiðunar hlutaskiptum.“

Hvers vegna á þetta ekki við? Þetta er skýr lagabókstafur og hefur verið í lögum fram að þessu. Á að hafa hann þar áfram? Hvers vegna á hann ekki við þegar menn eru að beita þessari svokölluðu vistun aflaheimilda? Á hvaða grundvelli er sú vistun og hefur verið? Mér finnst ástæða til að hæstv. sjávarútvegsráðherra fari nákvæmlega yfir það.

Svo langar mig að spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra: Er það þannig að það sé munnkefli uppi í öllum sjálfstæðismönnum hvað varðar þetta ákvæði í stjórnarsáttmálanum sem ríkisstjórn hans skrifaði undir og Framsóknarflokkurinn í upphafi kjörtímabilsins, um það að setja auðlindir sjávar í stjórnarskrána sem þjóðareign?