Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

Mánudaginn 26. febrúar 2007, kl. 22:02:18 (5429)


133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[22:02]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sagði áðan að það væri altalað að það væri lögbrot sem væri verið að fremja í þessu sambandi þannig að það þarf kannski ekki mjög miklu að bæta við það. Ég var hins vegar að segja það í ræðu minni áðan að ég teldi að almennt talað hefðu þessi lög reynst vel og þau hefðu virkað í þá átt sem þeim var ætlað að virka. Við höfum hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að þarna þyrfti að skerpa á og það væri það sem um væri að ræða.

Hvert er umfangið? Ég hef sagt það áður og ég hef m.a. verið að vísa í formann Sjómannasambands Íslands sem hefur sagt að umfang þessa vandamáls hafi minnkað mjög mikið. Það er hins vegar til staðar og við viljum reyna að uppræta það, m.a. með þeim lögum sem við erum að reyna að freista að koma hér á með þessu frumvarpi og ég skildi seinni ræðu hv. þingmanns þannig að hann tæki því afskaplega vel að vinna að því að það væri gert og ég fagna því sjónarmiði sem kom fram hjá honum núna á ellefta tíma kvöldsins.