Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

Mánudaginn 26. febrúar 2007, kl. 22:03:16 (5430)


133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[22:03]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér er farið að skiljast að hæstv. ráðherra vill helst ekki svara með beinum hætti beinum spurningum um það hvort núverandi lög séu nægjanlega skýr til að ná þeim markmiðum sem sagt er að lagafrumvarpið sem hér er lagt fram, eigi að ná. Mig langar því að freista þess, herra forseti, að bera fram beinar spurningar eða dæmi og óska eftir því að hæstv. ráðherra svari þeim þá beint. Þetta eru einfaldar spurningar.

Telur hæstv. ráðherra að ef sjómaður kvarti yfir því að á honum sé brotið, þá megi Verðlagsstofa hefja rannsókn og beita öllum þeim úrræðum sem lögin kveða á um, þar sem allir aðilar verða að svara henni ef þeir eru krafðir um það og bankaleynd gildi meira að segja ekki?

Telur hæstv. ráðherra að ef samkeppnisaðili einkum sem stundar svona bisness á sínum bát kvartar við Verðlagsstofu þá megi Verðlagsstofa hefja sjálfstæða rannsókn á því hvort rétt sé farið með eða ekki?

Í þriðja lagi: Telur hæstv. ráðherra ekki að heimildir séu fyrir hendi til þess að Verðlagsstofa, ef upp kemur grunur einhverra hluta vegna um að verið sé að brjóta ákvæði laganna, hafi í núverandi lögum allar þær heimildir sem þarf til þess að hefja rannsókn og krefja alla þá aðila sem eiga að svara spurningum Verðlagsstofu, um skýr svör og Verðlagsstofa geti þá miðað við núverandi lög komist að niðurstöðu? Í hnotskurn er spurningin um það hvort Verðlagsstofa skiptaverðs hafi ekki þær heimildir sem er verið að leita eftir að færa henni en hafi einfaldlega ekki nýtt þær.