Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

Mánudaginn 26. febrúar 2007, kl. 22:19:40 (5435)


133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[22:19]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst það mjög athyglisvert sem hefur komið fram hjá formanni þingflokks Samfylkingarinnar, hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, sem einnig á sæti í stjórnarskrárnefnd sem nú er búin að skila af sér. Eftir því sem ég skil orð hv. þingmanns er verkefni hennar í sjálfu sér lokið. Ég spyr: Var það forsætisráðherra sem skipaði stjórnarskrárnefnd og starfaði hún á ábyrgð hans? Til einhvers hlýtur álitinu að hafa verið skilað. Álitinu er skilað til forsætisráðherra og fram kom hjá hv. þingmanni að undirnefnd, sem fékk þessi mál sérstaklega til meðferðar, var sammála um að þetta ætti að fara inn í stjórnarskrána.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn mynduðu fyrir tæpum fjórum árum þá ríkisstjórn sem nú er að kveðja. Það var hluti af því loforði sem þeir gáfu bæði sínum eigin þingflokkum og þjóðinni allri að þeir ætluðu að beita sér fyrir því í stjórnarsáttmálanum að eign þjóðarinnar á auðlindum hafsins yrði bundin í stjórnarskrá. Það er líka eitt af grundvallaratriðum hjá öðrum flokkum, Samfylkingunni, Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og Frjálslynda flokknum.

Mér er hreinlega spurn: Hvernig getur svona lagað gerst? Allir flokkar hafa bundist böndum um að þessu skyldi koma á, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hafa meira að segja sett þetta í stórmerkilegan stjórnarsáttmála sinn en samt nær þetta ekki fram að ganga.