Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

Mánudaginn 26. febrúar 2007, kl. 22:22:16 (5436)


133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[22:22]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason spyr: Hvernig getur þetta gerst? Ég lýsti því áðan. Menn nálguðust þessa vinnu á mismunandi hátt. Ég var þeirrar skoðunar og fleiri í nefndinni að reyna ætti — og það hefur komið fram í fjölmiðlum af minni hálfu — að ná samstöðu um það sem sammæli væri um. Í áfangaskýrslunni, sem verður væntanlega birt almenningi og Alþingi áður en þing er úti, mun koma fram að í stjórnarskrárnefnd ræddu menn þetta. Þar hnigu öll rök að þeirri niðurstöðu að allir flokkar væru í reynd sammála um þetta. Ég hnykki sérstaklega á því atriði að sérstakur starfshópur var skipaður sem undirnefnd stjórnarskrárnefndar til þess að fjalla um þetta. Þar er hægt að lesa í fundargerðum hvernig menn fikruðu sig áfram að niðurstöðu. Það mun liggja fyrir í prentuðum texta þegar þar að kemur.

Það er alveg ljóst að enginn ágreiningur var í starfshópnum. Þar voru menn úr ýmsum stjórnmálaflokkum að verki en hann starfaði undir forustu þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Það var því ekkert sem gaf til kynna að Sjálfstæðisflokkurinn eða aðrir flokkar væru á móti þessu. Þvert á móti skilaði starfshópurinn sameiginlegri skoðun. Það ber að undirstrika að sú skoðun og það álit og tillagan sem þar gekk fram, á hana ber einungis að líta sem vinnuplagg fyrir nefndina. Hvergi kom fram að nokkur stjórnmálaflokkur væri á móti þessu. Það er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því. Í nefndinni voru það einhver önnur rök, eins og ég lýsti hérna áðan, sem gerðu það að verkum að ekki tókst að ná þessu úr nefndinni. En samt liggur fyrir að enginn hefur beinlínis lagst gegn þessu af grundvallarástæðum. Hv. þingmaður getur velt því fyrir sér hvernig á því standi.