Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

Mánudaginn 26. febrúar 2007, kl. 22:26:42 (5438)


133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[22:26]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þegar gengið var til þeirrar vinnu að endurskoða stjórnarskrána hefði fyrir fram mátt ætla að mjög auðvelt yrði að ná samstöðu um að breyta stjórnarskránni á þann hátt að upp í hana yrði tekið ákvæði um þjóðareign á sameiginlegum auðlindum í hafi. Ástæðan er sú, eins og ég hef rakið hér, að á þann veg var yfirlýsing stjórnarinnar, þetta var hluti af samstarfssamningi stjórnarflokkanna tveggja. Maður skyldi ætla að þegar stjórnarandstaðan tekur þátt í starfi nefndar af þessu tagi og lýsir því yfir að hún vilji taka höndum saman við ríkisstjórnina um að ná þessu inn í stjórnarskrá mundu ríkisstjórnarfulltrúarnir ljósta upp höndum af fögnuði, þakka fyrir og efna til þess samstarfs. En eins og hv. þingmaður veit þá var þetta ekki eitt af því sem kom úr stjórnarskrárnefnd. Það var ekki stjórnarandstöðunni að kenna. Hún lagði ríka áherslu á að þetta yrði samþykkt. Ástæðan fyrir því að það var ekki gert er einfaldlega sú að þeir sem höfðu meiri hluta í nefndinni voru ekki þeirrar skoðunar að það ætti að gera það á þessum tíma.

Hverjir höfðu meiri hluta í nefndinni? Það voru Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur. Menn vita að þetta er hluti af því sem þeir lýstu yfir að þeir vildu ná fram. Þeir höfðu tækifæri til að ná því fram en þeir gerðu það ekki. Allt bendir til þess að þessir tveir flokkar ætli að svíkja það sem var eitt af stærstu loforðum þeirra. Það sem er merkilegast er sú staðreynd að það var Framsóknarflokkurinn sem náði þessu fram. Þetta var sáttargjörð Framsóknarflokksins í deilum innan hans. Við buðumst til að hjálpa Framsóknarflokknum til að ná þessu fram. Því boði var í verki hafnað. Þetta hljóta menn að taka upp og spyrja í kosningabaráttunni: Af hverju hafnaði Framsóknarflokkurinn því? Hver var það sem knúði hann til þess?