Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

Mánudaginn 26. febrúar 2007, kl. 22:33:29 (5441)


133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[22:33]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef ég hef haft hv. þm. Össur Skarphéðinsson fyrir rangri sök með því að eigna honum upphaf þessarar umræðu þá biðst ég afsökunar á því. Það voru hins vegar atriði í máli hans sem mér fannst gefa tilefni til að skýra stöðu mála í stjórnarskrárnefnd örlítið betur út frá upplifun minni af nefndinni en ég er auðvitað eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson bara meðalgreindur þingmaður þannig að ég hef ekki endilega höndlað sannleikann í því. Til dæmis var upplifun mín talsvert öðruvísi varðandi vinnu þeirra starfshópa sem hann vísaði til í ræðu sinni. Það hefur verið skýrt í mínum huga frá upphafi að þeir vinnuhópar sem voru settir á vissu stigi í starfi stjórnarskrárnefndar voru ekki til þess ætlaðir að klára einhver mál eða komast að endanlegri niðurstöðu. Þannig var að þeir voru auðvitað notaðir til að þoka málum áfram og klára efnislegar umræður um einstök atriði, reifa sjónarmið og reyna að átta sig á hvaða fletir væru fyrir hendi í starfinu til þess að ekki væri níu manna nefnd bundin við þá umræðu eins mikið og útlit var fyrir. Það sem kom hins vegar út úr einstökum starfshópum voru ekki formlegar tillögur eða endanleg niðurstaða í einu eða neinu þó að vissulega hafi starf þessara starfshópa hugsanlega hjálpað okkur í áttina að einhverri niðurstöðu.

Það er hins vegar niðurstaðan að þrátt fyrir að góð sátt væri um alls konar hugmyndir sem uppi voru í nefndinni þá töldu menn sig eiga eftir að ná niðurstöðu, m.a. með því að ná sameiginlegum skilningi á einstökum tillögum sem á borðinu voru og það var bara útlit fyrir að það tæki lengri tíma en til stefnu var.