Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

Mánudaginn 26. febrúar 2007, kl. 22:38:03 (5443)


133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[22:38]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég átti kannski ekki von á því undir þessum dagskrárlið að tekin yrði upp umræða um afdrif stjórnarskrárnefndarinnar og þeirrar stjórnarskrárendurskoðunar sem hér hefur verið í gangi undanfarna mánuði. Ég fagna því í sjálfu sér að sú umræða er komin upp og auðvitað snertir hún þetta sjávarútvegsmál ákaflega náið.

Það er komið upp að af einhverjum ástæðum stöðvaðist samstarf, sem virðist hafa tekist nokkuð gæfulega til að byrja með, um það að koma fyrir frægu sameignarákvæði í stjórnarskránni sem allir flokkar hafa verið sammála um á Íslandi og er sá árangur einn saman sem kom út úr síðustu kosningabaráttu sem lauk því miður þannig að ríkisstjórnarflokkarnir náðu aftur meiri hluta en hétu því í stjórnarsáttmála sínum eða stjórnarmyndunarplaggi, hvað sem það var kallað, að setja þetta ákvæði inn í stjórnarskrá. Það stendur upp á þessa tvo flokka að gera það eða útskýra fyrir kjósendum sínum ella, þeim hinum fornu sem þeir reyna nú að höfða til aftur, hvers vegna þetta tekst ekki eða hvort þetta stendur enn þá til. Ég óska eftir því, að gefnu tilefni, að hæstv. sjávarútvegsráðherra upplýsi um vilja sinn og hug til þess máls og hvort hann ætli sjálfur að beita sér fyrir því eða ríkisstjórn hans með einhverjum hætti að þetta ákvæði verði sett inn í stjórnarskrána. Það kemur í ljós að undirnefnd þeirrar stjórnarskrárnefndar sem hv. þm. Jón Kristjánsson, núverandi forseti þingsins í kvöld, stjórnar hefur beinlínis gert þessa tillögu til stjórnarskrárnefndarinnar sem slíkrar. Ég tel rétt að hv. þm. Jón Kristjánsson noti þetta tækifæri og geri grein fyrir því, vegna þess að hér er völ á öðrum forsetum af ýmsu tagi og öllum gerðum og hæstvirtum, hvernig þetta mál er raunverulega statt, hvers vegna stjórnarskrárnefndin tók ekki við þessum tillögum og skilaði þeim sem sinni eigin tillögu þar sem allir flokkar munu hafa verið sammála þessu, að undanteknum einum manni sem þeir félagar ræða hér um, hv. þingmenn Össur Skarphéðinsson og Birgir Ármannsson, setumenn í þessari stjórnarskrárnefnd, að hafi verið ósammála, ef ég skil það rétt, að meiri hluti allra þessara níu hafi verið sammála þessari tillögu og efnislega hafi ekki staðið neitt gegn því að hún væri með í lokaniðurstöðu nefndarinnar.

Það er svo þyngra en tárum taki að horfa á þessa lokaniðurstöðu nefndarinnar sem væri varla til nema í einhverjum lausafréttum því að ég man ekki eftir að formaður nefndarinnar hafi í raun og veru gert grein fyrir því þannig að hægt sé að spyrja hann út úr, þ.e. hér á Alþingi, þessu nefndarstarfi og hvernig það gekk. Við vitum vel að það hefur gengið erfiðlega að endurskoða stjórnarskrá okkar frá 1944 sem á auðvitað rót í stjórnarskránni 1874. Ég ætla nú ekki að fara með þá sögu lengra en það væri auðvitað ástæða til að nefna ártölin 1848 og kannski 1789 og 1776 ef menn vilja fara svo langt aftur. Þess vegna hefði það auðvitað verið ákjósanlegur kostur fyrir stjórnarskrárnefndina nú að reyna að vinna þetta verk í einhverjum áföngum, að taka saman höndum um það sem öllum þótti sjálfsagt í málinu. Ég nefni þann kafla sem vantar í raun og veru í stjórnarskrána um dómstólana og flestir eru sammála um að eigi að vera þar. Það má líka nefna tillögu sem ég var svo djarfur að senda stjórnarskrárnefndinni, fyrir hönd okkar sem fluttum hana á þinginu, að tekið yrði upp í stjórnarskrána að íslensk tunga væri opinbert mál á Íslandi þannig að með því gæfist grundvöllur til lagasetningar frá Alþingi að tillögu menntamálaráðherra, væntanlega, hver sem það hefði verið, tillaga sem ég hygg að menn hljóti að vera nokkuð sáttir við.

Fleira má nefna auk þeirrar tillögu sem hér er til umræðu, að auðlindir Íslendinga séu þeim sameiginlegar, bæði sjávarútvegsauðlindin og auðvitað allar þær auðlindir sem hér undir falla. Stjórnarskrárnefndin virðist hafa gefist upp á þessu. Formaður nefndarinnar virðist hafa gefist upp á því að koma mönnum saman um þessa einstöku þætti. Það hljómar frá hv. þm. Birgi Ármannssyni, fulltrúa í nefndinni, að af hálfu hans flokks, ef ég skil hann rétt, hafi ekki staðið annað til en að ná samkomulagi um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar að þessu sinni og úr því að það tókst ekki þá skuli allur vindur úr þeirri blöðru nema þessi eina tillaga sem eftir stendur, að mér skilst á lausafréttum, sem er út af fyrir sig ágæt, að landsmenn kjósi sumsé beint um stjórnarskrárbreytingar framvegis og við leggjum niður þennan svip sem er ankannalegur að það skuli gert í framhjáhlaupi í almennum kosningum, sem ég man ekki eftir að hafi í raun og veru skipt neinu máli í sögu lýðveldisins nokkru sinni þó að þar væri stjórnarskrárbreyting undir.

Ég held að það hafi verið misskilningur hjá formanni nefndarinnar að láta undan þessu og hann hefði betur haft uppi djörfung og reynt að afgreiða þó einhvern áfanga að þessari stjórnarskrárendurskoðun, vegna þess að ég tel að þessi stjórnarskrárendurskoðun gangi ekki öðruvísi en að menn reyni að fara dagleið í senn og hafi uppi viðleitni til þess að bæta stjórnarskrána í áföngum þannig að sátt sé um hvern og einn áfanga. Það er sú leið sem við höfum farið hingað til og er í raun og veru alveg óskiljanlegt að þessi ríkisstjórn skuli hafa sett sínum mönnum þau skilyrði að ekki mætti hreyfa sig neitt í stjórnarskrármálinu án þess að allt væri undir.

Forseti. Þegar menn velta fyrir sér hver kunni að vera ástæðan fyrir því að þessi vinnubrögð voru viðhöfð í stjórnarskrárnefndinni, sem, ef ég skil rétt, hefur í raun lokið störfum, þá virðist svarið vera það að Framsóknarflokkurinn hafi ekki treyst sér til að ganga í berhögg við þann vilja sem uppi er í forustu Sjálfstæðisflokksins um að hafa einhvers konar endaskipti á stjórnarskrárákvæðum um hlutverk forseta Íslands en þar blandaðist í frægar deilur, sem nú er lýst í fjölmiðlum sem eins konar sjúkdómi sem hafi herjað á samfélagið og er sprottið upp í myrkviðum Sjálfstæðisflokksins, forsetaembættið og varð andlag heiftúðugra ásakana og andróðurs. Það er engu líkara en þessi sjúkdómur herji enn á hluta af Sjálfstæðisflokknum og sé í raun og veru ástæðan fyrir því að svo fór með stjórnarskrána sem raun virðist bera vitni að stjórnarskrárnefndin hin stóra, með hinn dugmikla formann sinn, hefur gefist upp á málinu nema með þessari einu tillögu og látið það ganga áfram og lengir þar með hina sorglegu sögu stjórnarskrárnefnda sem hér hafa starfað í lýðveldissögunni. Þetta er auðvitað þeim mun furðulegra sem Framsóknarflokkurinn er forsetahollur flokkur og hefur lengi verið.

(Forseti (JónK): Forseti vill minna á að það er Verðlagsstofa skiptaverðs sem er til umræðu en þó að stjórnarskráin sé nú skyld því máli er ræðumaður kominn ansi langt út fyrir efnið að mínu mati.)

Verðlagsstofa skiptaverðs er auðvitað hið besta mál (Gripið fram í.) og ekki skal ég vanvirða það ágæta umræðuefni en hér var verið að tala um stjórnarskrána og það hefur ekki gefist tækifæri, forseti, til að ræða hana hér áður þangað til það gafst skyndilega núna með umræðum sem vissulega komu Verðlagsstofu skiptaverðs við í upphafi máls þó að umræðan hafi færst nokkuð fjarri henni. Ég vil að sjálfsögðu, af því að ég er einnig forsetahollur maður, hlýða forseta með það að ræða ekki stjórnarskrána miklu frekar en ég vil endurtaka áskorun mína í fyrsta lagi til hæstv. sjávarútvegsráðherra að segja okkur frá því hver afstaða hans er til þessa stjórnarskrárákvæðis í fullri alvöru vegna þess að það er rétt að það liggi fyrir hvaða afstöðu hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur til þessa máls, hvort hann telur að sjávarútvegsauðlindin eigi að vera sameign þjóðarinnar eða ekki því að hegðun hans, atferli hæstv. sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnar hans og þeirrar ríkisstjórnar sem setið hefur í 16 ár, er þannig að ekki verður annað séð en að hæstv. sjávarútvegsráðherra líti í raun á sjávarútvegsauðlindina sem einkaeign útgerðarmanna, sem þeir sjálfir halda fram að eigi að vera svo og sé eðlilegt mál. Það er eðlilegt að hann svari því og það er líka eðlilegt, forseti, að formaður stjórnarskrárnefndar geri rækilega grein fyrir því, annaðhvort í þessari umræðu eða áður en þingi lýkur og helst sem allra, allra fyrst, hver staðan er í þessu stjórnarskrármáli. Hver er sannleikurinn í deilu þeirra Össurar Skarphéðinssonar og Birgis Ármannssonar, hv. þingmanna, um niðurstöður undirnefndarinnar og viðbrögð stjórnarskrárnefndar við því og hvers vegna stjórnarskrárnefndin, undir forustu manns sem við töldum vera einna lífsreyndastan og kraftmestan af þeim þingmönnum sem hér sitja, gafst upp á þessu ætlunarverki sínu að því er virðist vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki lifað við það að forseti Íslands starfi samkvæmt þeim reglum sem honum eru settar í stjórnarskrá lýðveldisins?