Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

Mánudaginn 26. febrúar 2007, kl. 22:51:07 (5445)


133. löggjafarþing — 78. fundur,  26. feb. 2007.

Verðlagsstofa skiptaverðs o.fl.

644. mál
[22:51]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er rétt að við erum að ræða um Verðlagsstofu skiptaverðs. Ef það ákvæði sem hér er verið að ræða um kemur inn í stjórnarskrána á ég von á að skiptin verði kannski svolítið öðruvísi í framtíðinni, þ.e. að þjóðin fái sinn hlut úr þeim skiptum, og því er alveg ástæða til að ræða um þau málefni hér.

Það sem ég vil segja um það mál, hæstv. forseti, er að mér finnst afar merkilegt að það skuli vera niðurstaða stjórnarskrárnefndar að fara fyrst í heildarendurskoðun, hætta svo við hana en láta samt eitt mál út úr nefndinni. Þar með er stjórnarskrárnefnd að leggja til einungis eitt atriði, ef þær fréttir eru réttar sem hafðar eru eftir hæstv. forseta og formanni stjórnarskrárnefndar, og þá hlýtur sú spurning að vakna: Hvers vegna í ósköpunum er þá ekki hægt að ganga frá atriðum sem allir eru sammála um, eins og að setja auðlindir sjávar inn í stjórnarskrána sem þjóðareign? Því það er auðséð að ef það tekst ekki að ná þeirri niðurstöðu er ákvæðið í stjórnarsáttmálanum úti í vindinum. Núverandi stjórn situr ekki nema fram að næstu kosningum, alveg sama hvernig kosningarnar fara, og þá hefur það loforð verið svikið. Væntanlega hefur ríkisstjórnin gert sér grein fyrir því þegar hún ákvað að setja þetta inn í stjórnarsáttmálann að það þyrfti að gerast á kjörtímabilinu? Þessi ríkisstjórn getur ekki hafa reiknað með því að hún yrði til eilífðar, ríkisstjórnir eru til fjögurra ára hér á landi. Þess vegna er ekki um annað að ræða, ef menn ætla að standa við þetta, en að ljúka umfjöllun um málið og til þess er auðvitað tækifæri enn þá.