Varnir gegn landbroti

Fimmtudaginn 01. mars 2007, kl. 11:25:36 (5716)


133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[11:25]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breytingu á lögum nr. 91/2002, um varnir gegn landbroti, á þskj. 945 sem er 637. mál Alþingis. Með frumvarpinu fylgir kostnaðarmat fjármálaráðuneytisins. Ný vatnalög voru samþykkt á 132. löggjafarþingi Alþingis þann 16. mars 2006. Er þeim ætlað að taka gildi þann 1. nóvember 2007. Við setningu laganna gerðist það að sú stjórnsýsla sem landbúnaðarráðuneytið hefur yfirumsjón með og varðar varnir lands og landsnytja gegn ágangi vatna var flutt til iðnaðarráðuneytisins. Þetta gerðist auðvitað af misgáningi og ég tel að þarna hafi verið um einfalda yfirsjón að ræða og tek mína sök í málinu á því að hafa ekki áttað mig á því fyrr en það var komið mjög langt í þinginu á þeim tíma sem menn muna eftir. Það er enda ljóst samkvæmt ákvæðum 6. tölul. 9. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands, nr. 3/2004, að þessi verkefni eru meðal þeirra verkefna sem landbúnaðarráðuneytinu eru falin og um þau er fjallað í lögum um varnir gegn landbroti, nr. 91/2002. Í ljósi þessa hefur landbúnaðarráðuneytið, í góðu samstarfi við iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið og hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og svo ríkisstjórn lagt fram það frumvarp sem hér um ræðir sem stjórnarfrumvarp. Þar sem nýju vatnalögin taka gildi þann 1. nóvember 2007 er ljóst að nú þegar er rétt að bregðast við með þeim breytingum sem hér eru lagðar til. Í 75. gr. núverandi vatnalaga, nr. 15/1923, þar sem fjallað er um varnir lands og landsnytja gegn ágangi vatna er mælt fyrir um heimild eða leyfi ráðherra til ákveðinna framkvæmda og til lögnáms. Í 151. gr. vatnalaga, nr. 15/1923, segir að atvinnumálaráðherra hafi yfirstjórn þeirra mála er lögin mæla fyrir um. Eftir að atvinnuvegamálaráðuneytið var aflagt og sérgreind ráðuneyti fyrir landbúnað, sjávarútveg, iðnað og viðskipti, og svo umhverfi, urðu til skiptust þau verkefni sem núverandi vatnalög mæla fyrir um á viðkomandi ráðuneyti eftir starfssviði þeirra.

Eitt markmið frumvarps þessa er að færa undantekningarreglu 13. gr. vatnalaga um heimild landeigenda til að breyta vatnsfarvegi sé það gert til að verja land eða landsnytjar ágangi vatns yfir í lög um varnir gegn landbroti og að sama skapi færa stjórnsýslu slíkra mála aftur undir landbúnaðarráðuneytið. Ekki er um nýja heimild eða undantekningu að ræða, heldur sambærilega heimild og er í vatnalögum, nr. 15/1923, og eins og áður sagði í nýjum vatnalögum, nr. 20/2006. Hins vegar þykir rétt að færa þessa heimild í lög um varnir gegn landbroti enda er henni sérstaklega ætlað að veita landeigendum heimild til að verja land sitt gegn landbroti.

Í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins er fjallað um heimildir fasteignareiganda til að breyta vatnsfarvegi í því skyni að verja land eða landsnytjar gegn spjöllum af landbroti eða árennsli vatns. Heimild 1. mgr. til handa fasteignareiganda kann að takmarkast af ákvæðum annarra laga, svo sem lax- og silungsveiðilaga, og ávallt þarf að skýra heimildarákvæði 1. mgr. með hliðsjón af öðrum ákvæðum laga eftir því sem við á. Þessi heimild er ekki ný af nálinni og hefur um lengstan tíma verið í vatnalögum.

Í 2. mgr. 1. gr. er kveðið á um heimild ráðherra til að veita eignarnámsheimild til fasteignareiganda ef hann þarf afnot af fasteign annars manns til þeirra framkvæmda sem heimilar eru samkvæmt 1. mgr. Um bætur fer samkvæmt eignarnámsmati ef ekki semst með aðilum. Ekki er um nýja heimild til ráðherra að ræða, en sambærileg heimild var í vatnalögum, nr. 15/1923.

Í 3. mgr. 1. gr. er kveðið á um heimild ráðherra til að ráðast í framkvæmdir samkvæmt 1. mgr. enda sé það gert til að verja fasteignir eða önnur mannvirki sem varða almannaheill.

Í 2. gr. frumvarpsins eru gerðar nauðsynlegar breytingar samhliða breytingum á lögum um varnir gegn landbroti á ákvæðum nýju vatnalaganna, nr. 20/2006, og tekin út úr þeim þau fáu ákvæði er varða landbrotsheimildir þar sem fjallað er um varnir lands og landsnytja eins og að framan greinir.

Í 3. tölul. er kveðið á um að landbúnaðarráðherra fari með leyfisveitingar samkvæmt 14. gr. vatnalaga en sú grein fjallar um heimild til að fella vatnsfall í fornan farveg eða koma honum í samt lag.

Þá held ég að ég hafi í meginatriðum farið yfir helstu skýringar á þessu frumvarpi og lýk máli mínu, hæstv. forseti, með því að óska þess að að lokinni umræðu um þetta þingmál verði því vísað til 2. umr. og hv. landbúnaðarnefndar.