Varnir gegn landbroti

Fimmtudaginn 01. mars 2007, kl. 11:32:26 (5717)


133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[11:32]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vek athygli forseta á því að hér er mjög furðulegt í gangi. Nú er verið að koma með breytingar á vatnalögum sem voru samþykkt á síðasta ári. Þau voru samþykkt á síðasta þingi og eiga ekki að taka gildi fyrr en 1. nóvember árið 2007, vatnalögin sem fólu í sér einkavæðinguna á vatni, hvort sem var í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi, það var fært til séreignarréttar sem var mjög sérstakt, einkavæðingin á vatni, og var furðulegt að meira að segja framsóknarmenn skyldu berjast fyrir því. Umræddar breytingar eru látnar koma fram í lögum um varnir gegn landbroti. Þetta eru breytingar fyrst og fremst á vatnalögunum sjálfum og ég spyr landbúnaðarráðherra hvort ekki hefði verið eðlilegra að flutt hefði verið nýtt frumvarp um vatnalögin sem slík þar sem þær breytingar sem hann gerir hér hefðu falið í sér niðurfellingu úr vatnalögunum. Það er furðulegt að taka inn í frumvarp um varnir gegn landbroti alfarið nánast greinar sem á að fella út úr öðru frumvarpi og heyrir undir allt annað ráðuneyti.

Ég bið líka forseta að kanna hvort þetta sé yfirleitt löglegt, að landbúnaðarráðherra flytji frumvarp sem felur í sér breytingar á lögum sem iðnaðarráðherra beitti sér fyrir síðasta vetur og ber ábyrgð á.