Varnir gegn landbroti

Fimmtudaginn 01. mars 2007, kl. 11:34:33 (5718)


133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[11:34]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki í langar deilur um vatnalögin og þær miklu umræður sem um þau fóru fram á síðasta þingi þar sem gömul lög frá 1923 voru færð til nútímans. Fullyrðingar stjórnarandstöðu um að verið væri að einkavæða vatnið var auðvitað tal út í loftið og skreytingar í þeirri umræðu að reyna að halda því fram. Auðvitað verður vatnið aldrei einkavætt og hefur ekki hvarflað að neinum. Hins vegar hefur það legið fyrir frá 1923 að landeigendur og bændur sem eiga jarðir fara með auðlindir sínar og ráða þar miklu um og ber að gera þannig. Vatnið rennur hins vegar frjálst frá einum dal til annars og niður hlíðina og um iður jarðar og verður aldrei einkavætt.

Ég hef rakið hvers vegna þessar breytingar eru. Hv. þingmaður á sæti í landbúnaðarnefnd og getur þar farið yfir eðli þessa máls, mun örugglega gera það og ég treysti honum til þess. Þar mun hann skoða þetta mál og fara yfir það. Ég tel það mjög eðlilegt. Margir voru mér sammála um það í fyrra þegar þetta var til umræðu að flytja þá breytingartillögu en um það náðist ekki samstaða eins og hv. þingmenn muna þannig að ég sé ekkert annað, og hef lögfræðilega farið yfir það, en að þetta sé eðlileg lagabreyting sem gerir það að verkum að þessi stóru verkefni færast aftur undir landbúnaðarráðuneytið og Landgræðsluna þar sem ég veit að hv. þingmaður er sammála mér um að þau eigi heima.