Varnir gegn landbroti

Fimmtudaginn 01. mars 2007, kl. 11:36:31 (5719)


133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[11:36]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég heyri að hæstv. landbúnaðarráðherra sem er um margt vel meinandi og m.a. í þessum efnum hálfskammast sín fyrir að axla ábyrgð á vatnalögunum sem voru samþykkt í fyrra þar sem þau fela í sér eins og stendur í 1. gr.: „Markmið laga þessara er skýrt eignarhald á vatni“ o.s.frv. Það þýðir ekki að víkja sér undan því að vatnalögin fólu í sér einkavæðingu á vatni, að það færi í séreignarrétt.

Hitt vil ég líka benda hæstv. ráðherra á, að hann var ásamt ríkisstjórninni ábyrgur fyrir því frumvarpi sem iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins flutti og barðist fyrir með kjafti og klóm í gegnum þingið sem fól í sér að m.a. valdsvið sem áður heyrði undir landbúnaðarráðherra var komið undir iðnaðarráðherra samkvæmt frumvarpi hennar. Það var ekki fyrr en í umræðum á Alþingi sem hæstv. landbúnaðarráðherra gerði sér grein fyrir því. Stjórnarandstaðan bauðst þá til að standa að breytingartillögu sem færði þetta vald aftur til landbúnaðarráðherra. En landbúnaðarráðherra treysti sér þá ekki til að þiggja það góða boð. Ég vil bara minna hæstv. ráðherra á það. Ég er alveg sammála ráðherra um að þessi verkefni — (Gripið fram í: … iðnaðarráðherra …) Ef það hefur verið margrætt af landbúnaðarráðherra ætti hann bara að sækja það mál inn í ríkisstjórn eins og við buðum honum að styðja hann til. En hæstv. þáverandi iðnaðarráðherra hefur víst haft meiri áhrif, landbúnaðarráðherra guggnaði á því að koma með þær breytingartillögur sem við buðumst til að styðja hann með þá. Hinu held ég samt að verði ekki horft fram hjá, að þær breytingar sem hér er verið að gera og hæstv. landbúnaðarráðherra mælir fyrir, að færa umráðarétt yfir ákveðnum verkefnum sem voru komin undir vatnalögin undir landbúnaðarráðherra aftur, eru hluti af vatnalögunum og þess vegna á að flytja breytingartillögu við vatnalögin. (Forseti hringir.) Hvers vegna gerir ríkisstjórnin það ekki? Er einhver sem stendur gegn þessum breytingum? (Forseti hringir.) Stjórnskipunarlega, frú forseti … (Forseti hringir.)