Varnir gegn landbroti

Fimmtudaginn 01. mars 2007, kl. 11:39:01 (5720)


133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[11:39]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er óþarfi með jafnsnjallan og -kláran þingmann og hv. þm. Jón Bjarnason að snúa út úr þessu. Það liggur auðvitað fyrir í þessu frumvarpi að við erum að breyta vatnalögum. (JBjarn: Já, ...) Það liggur fyrir. Við erum að færa aftur til baka það sem þar var og ég þarf svo sem ekkert að fara yfir það. Ég er sammála hv. þingmanni um að margir stjórnarandstöðuþingmenn á síðasta þingi voru tilbúnir að leggja mér lið þegar ég áttaði mig á að þetta var með þessum hætti sem auðvitað var allt of seint gert. Ég get bara viðurkennt hér að eftir þær löngu umræður sem höfðu orðið um vatnalögin náði ég ekki samstöðu með stjórnarliðinu um að flytja þessa breytingu þá, heldur að klára málið eins og það var. Nú hefur ríkisstjórnin og núverandi iðnaðarráðherra fallist á þetta og unnið með mér (JBjarn: Utanríkisráðherra.) að þessu. Utanríkisráðherra stendur að þessu sem aðili í ríkisstjórn og í mínum þingflokki og hefur gert athugasemdir. Hér er það skýrt að við erum að breyta vatnalögum og færa þetta þangað sem því ber að vera og bið ég hv. þingmann að virða það og styðja eins og hér hefur í rauninni komið fram, að margir stjórnarandstöðumenn lýstu yfir í fyrra þegar þetta kom fram seint í umræðunni að þetta væri með þessum hætti.