Varnir gegn landbroti

Fimmtudaginn 01. mars 2007, kl. 11:40:50 (5721)


133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[11:40]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Nú er hæstv. landbúnaðarráðherra mættur með tillögu um breytingu á lögum um varnir gegn landbroti og reyndar á vatnalögum. Hæstv. ráðherra er enn einu sinni of seinn með það sem hann vill ná fram. Það komst upp um hann í umræðunni um vatnalögin að hann hefði verið meðvitundarlaus þegar verið var að samþykkja þau í ríkisstjórninni. Seint í þeirri umræðu gerðist hann mjög órór á göngum Alþingis og reyndi að ná því fram að gerðar yrðu breytingar á þeim lögum. Það varð ekki niðurstaðan og vatnalögin fóru í gegn eins og raun ber vitni en þó með þeirri breytingu að gildistökunni var breytt. Það var stjórnarandstaðan sem náði því í gegn vegna þess að hún ætlar sér að koma í veg fyrir að þessi lög taki nokkurn tíma gildi. Þetta frumvarp hæstv. ráðherra er þess vegna óþarft vegna þess að lögin munu ekki taka gildi. Það kynni líka að vera óþarft af öðrum ástæðum. Það virðist vera sammæli milli bæði stjórnar og stjórnarandstöðu að gera eigi breytingar á Stjórnarráðinu og margir hafa varpað því fram í umræðunni að þær breytingar leiði af sér að landbúnaðarráðuneytið muni sameinast öðrum ráðuneytum. Barátta hæstv. ráðherra fyrir því að verkefni séu ekki tekin úr því ráðuneyti kann þá að tapast af þeim ástæðum líka.

Hæstv. ráðherra byrjaði á því, eins og ég sagði, þegar hann fór að átta sig á að þetta væri eitt af því sem vatnalögin hefðu í för með sér, að reyna að ná samstöðu með félaga sínum í Framsóknarflokknum, hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem þá var, um að gera breytingar á frumvarpinu. Þar kom hann að lokuðum dyrum og þurfti að sætta sig við að það yrði ekki gert. Ég held að það hefði verið betra að hæstv. ráðherra hefði lesið eitthvað meira í þessum vatnalögum því að hann hefur greinilega misskilið aðaltilganginn með því að flytja þau. Aðaltilgangurinn með því að flytja þessi lög er skýrt eignarhald á vatni, eins og það er kallað. Hvernig er það framkvæmt? Það er framkvæmt með því að í stað þess að lagagreinarnar í frumvarpinu séu settar fram á jákvæðan hátt, þ.e. að í þeim felist það sem menn mega gera, þá er hin neikvæða skilgreining notuð og þar er einungis sett fram hvað menn mega ekki gera. Þetta þýðir að ríkið er að afsala sér yfirráðum yfir vatninu til eigenda landanna. Þetta hefur hæstv. ráðherra ekki skilið og þess vegna talar hann svona hér. Ég held að hæstv. ráðherra ætti að leggjast yfir þessa hluti og skoða þá betur því að ég efast ekkert um það að hann hefur fulla skynsemi til að átta sig á því hvað þetta þýðir ef hann bara fæst til að beita þeirri skynsemi sinni við skoðun á þessu máli.

Þó að hæstv. ráðherra sé hér mættur, nokkuð kyndugur, og viðurkenni upp á sig skömmina að hafa ekki (Gripið fram í.) gætt þess sem hann hefði átt að gera við undirbúning vatnalaganna (Gripið fram í: Er hann bljúgur?) þá ætlaði hann samt að reyna að komast bakdyramegin með þetta. Við fengum sendingu frá honum inn í landbúnaðarnefnd í vetur þar sem við vorum spurð að því hvort það væri ekki alveg sjálfsagt að nefndin flytti þetta mál fyrir hæstv. ráðherra af því að hann skammaðist sín fyrir þetta allt saman. Hann fékk náttúrlega bara kaldar kveðjur þaðan, ef hann ætlaði sér að fara að gera einhverjar breytingar á þeim lögum yrði hann að standa í sínu verkefni sjálfur. Svo kemur hann núna þegar þinginu er að ljúka, loksins búinn að hnoða saman þessu frumvarpi sem hér er til umræðu. Ég verð að segja eins og er að það er þó ekki hægt að skafa af honum eitt og það er bjartsýnin. Það er sú bjartsýni að honum detti í hug að hægt verði að afgreiða þetta mál á þessum þingvetri. Í fyrsta lagi er það gjörsamlega þarflaust vegna þess að þessi lög verða afnumin. Í öðru lagi er ekki víst að ráðuneyti hans lifi næstu ríkisstjórn. (Gripið fram í: Jú, jú, … í landbúnaðarráðuneytinu.) Í þriðja lagi er einfaldlega ekki tími til að fara að ræða vatnalögin upp á nýtt í sölum Alþingis fram að næstu kosningum nema menn ætli að fresta kosningunum, ég held þá að fresta þurfi kosningunum ef menn ætla að fara að ræða vatnalögin aftur. Þau eru þannig mál að stjórnarandstaðan er öll sameinuð um að ekki komi til greina að þau standi og þess vegna er þetta mál gjörsamlega óþarft. (Gripið fram í: … skipta um skoðun …) Vatnalögin frá 1923 eru í fullu gildi og hæstv. ráðherra þarf ekki á neinu að halda á meðan hann situr í þessum ráðherrastól, hann getur notað lögin eins og þau eru á meðan hann hefur þar sæti. Það er þess vegna kominn tími til að hann lesi það mál allt í gegn og átti sig á að hann hefði átt að gera það fyrr.

Fleira breyttist í sambandi við vatnalögin en það sem hæstv. ráðherra bendir á og ýmislegt breyttist hvað varðar nákvæmlega þann hluta málsins sem hæstv. ráðherra er að tala um. Þó að það sé ekki til fyrirmyndar að vitna í sjálfan sig ætla ég samt að gera það vegna þess að á einum stað í máli mínu þegar ég fjallaði um vatnalögin fór ég yfir hluta af því sem hæstv. ráðherra er að takast á við hér með þeim breytingum sem hann er að leggja til. Hann er ekki að leggja til breytingar á vatnalögunum í raun og veru, hann er bara að leggja til að verkefnið verði flutt til hans, að framkvæma hluta af því.

Hér stendur, með leyfi hæstv. forseta: (Gripið fram í: Passaðu þig nú að vitna rétt í.) Ég vitna rétt í, já.

„Sumir hafa nefnt að það gæti hugsanlega tengst Kárahnjúkavirkjun með einhverjum hætti.“ — Þ.e. breytingar á vatnalögum. — „Ég átta mig ekki nákvæmlega á hvort svo geti verið en þó er eitt sem mér finnst ástæða til að benda á en það er að í 3. mgr. 9. gr. vatnalaga frá 1923 stendur: „Nú verður breyting á farvegi eða vatnsmagni af völdum náttúrunnar eða þriðja manns, og verður þeim mein að, sem land eiga að, og skal þeim þá rétt að færa vatnið í samt lag, en gera skal það innan árs frá lokum þess árs, er breytingin varð, enda sé tjón það, er af verkinu hlýst, bætt eftir mati, nema samkomulag verði.

Hvað þýðir þetta? Það þýðir að breyti á farvegi sínum af náttúrulegum ástæðum þá hefur sá sem verður fyrir því að tapa einhverju af þeim sökum rétt til að færa ána til baka. Hann verður hins vegar að bæta öðrum tjón sem hugsanlega gæti skapast vegna þeirra framkvæmda sem hann færi í.

Þetta þýðir líka að ef einhver þriðji aðili breytir farvegi árinnar þá hefur sá sem fyrir því verður rétt til að færa ána til baka. Í frumvarpinu sem hér um ræðir“ — sem er orðið lög núna — „er ákvæði, þ.e. í 14. gr. Þar er tekist á við sama verkefni og leyst er úr í 9. gr. laganna [frá 1923]. En þar stendur, með leyfi forseta:

„Heimild til að fella vatnsfall í fornan farveg eða koma honum í samt lag. Nú breytist farvegur af náttúrulegum ástæðum og er þá fasteignareiganda hverjum sem bagi verður að breytingunni rétt að fella vatn í fornan farveg eða koma honum í samt lag.“

Hið athyglisverða við þetta er að nú er orðalagið „eða þriðja manns“ ekki með lengur. Það er einungis gert ráð fyrir því að farvegur geti breyst af náttúrulegum ástæðum en ekki að farvegur geti breyst af því að þriðji aðili hafi breytt honum. Þetta er afar athyglisvert vegna þess sem ég nefndi áðan möguleikann á því að þetta geti af einhverjum ástæðum átt upptök sín í vandamálum út af Kárahnjúkavirkjun. Þar er það þannig að þriðji aðili ætlar að færa eitt fljót í farveg annars, það er þriðji aðili samkvæmt 9. gr. vatnalaganna frá 1923.“

Það er þess vegna ástæða til að velta fyrir sér hvort bændur hafi þá rétt til þess að færa vatnsfallið til baka samkvæmt lögunum frá 1923.

Ég nefni þetta hér vegna þess að hæstv. ráðherra virðist ekkert hafa við það að athuga að þessum lögum hafi verið breytt með þessum hætti og hann gerir enga tilraun til þess að betrumbæta þau á neinn hátt. Það er sem sagt verið að þrengja möguleikana á rétti þeirra aðila sem verða fyrir því að vatnsföllum hefur verið breytt, vatnsföllum sem renna um þeirra lönd, þannig að ef það er ekki af náttúrulegum ástæðum þá geti verið að það sé ekki ákvæði í lögum um það að menn geti fært á í þann farveg sem fyrr var.

Það kann vel að vera að menn hafi aðrar skýringar á þessu en ég en mér finnst ástæða til þess að nefna þetta vegna þess að hæstv. ráðherra vill bara láta færa til sín það verkefni sem hann taldi sig vera að missa af en veltir því ekki fyrir sér hvort lögin hafi breytt einhverju gagnvart því verkefni sem hann er að óska eftir að verði fært undir ráðuneyti hans til framkvæmda.

Það er ýmislegt sem rifja þarf upp ef Alþingi ætlar virkilega að fara að ræða vatnalögin aftur í vetur eða það sem eftir lifir vetrar. Það verður örugglega gert hér í umræðum, á því er enginn vafi. Stjórnarandstaðan lagði í þá umræðu með þau markmið að koma í veg fyrir það þessi lög tækju gildi og stjórnarandstöðunni tókst að skapa tækifæri til þess að koma í veg fyrir að þau tækju gildi, sem er þó háð því að ríkisstjórnin falli í kosningunum í vor. Þess vegna er ástæða til að menn fari í þessa umræðu aftur úr því að upp á það er boðið, því að í þeirri umræðu er hægt að ræða um þá stefnu sem gildir gagnvart auðlindum í landinu og þessi ríkisstjórn hefur fylgt fram og virðist hafa, þó að erfitt sé að átta sig á sumu vegna þess að menn hafa ekki viljað viðurkenna hver ástæðan er fyrir gerðinni.

Markmið þessara laga, vatnalaganna, er skýrt eignarhald á vatni. Það er eiginlega ekki nokkur leið að átta sig á því hvers vegna menn leggja í þessa göngu nema menn gefi sér það fyrir fram að meiningin með henni sé sú að einkavæða vatnið í landinu og að það eignarhald verði með svipuðum hætti í framkvæmd í framtíðinni eins og það eignarhald á auðlindum sem stefnt er að, t.d. hvað varðar fiskinn í sjónum eða aðrar náttúruauðlindir. Kosningarnar í vor munu snúast um það hvernig menn ætla sér að fara með auðlindir í framtíðinni á Íslandi, þær auðlindir sem þjóðin á, þær auðlindir sem fyrir liggja tillögur um að verði festar í stjórnarskrá sem þjóðarauðlindir og sem Framsóknarflokkurinn er að kikna í hnjánum núna með að standa við. Framsóknarflokkurinn hafði þó þann manndóm í sér þegar stofnað var til þessarar ríkisstjórnar að koma því inn í stjórnarsáttmálann að auðlindir sjávar yrðu settar í stjórnarskrá með ákvæði þar um en nú liggur fyrir að niðurstaðan í nefndinni sem var að endurskoða stjórnarskrána og er komin með tillögur, er sú að það verði ekki.

Hér situr svo hæstv. landbúnaðarráðherra, sem talaði fyrir því og barði sér á brjóst fyrir síðustu kosningar að það skyldi nú aldeilis verða staðið við þessa hluti, situr hér hnípinn vegna þess að niðurstaðan er sú að samstarfsflokkurinn er að svíkja hann í málinu. Nefndin leggur þetta ekki til, það liggur fyrir, (Gripið fram í: Og hann var ekki að svíkja …) og hæstv. ráðherra situr sem fastast á þessum stóli. Er það svona eftirsóknarvert að fá að sitja fram að kosningadeginum, eða hvað? Því lengra verður það ekki sem sú seta varir. Hluti af þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur rekið, hvort sem það hefur verið með eða án vilja hæstv. landbúnaðarráðherra, er einkavæðing helst á öllum auðlindum sem hægt er höndum yfir að koma. Þess vegna er það mjög kærkomið að mínu mati fyrir stjórnarandstöðuna að fá mál í hendurnar þar sem hægt er að ræða virkilega vel þá stefnu sem rekin er og virðist vera að skýrast nokkuð, því að hún skýrir sig ekki lítið með því að ríkisstjórnin ætli að svíkja stjórnarsáttmála sinn um að setja auðlindir sjávar inn í stjórnarskrána.

Það er eiginlega undirstrikun á því hvert þessi ríkisstjórn stefnir í málunum, að svíkja sinn eigin stjórnarsáttmála hlýtur að vera stefnubreyting. Það getur ekki verið neitt annað. Það getur ekki verið einhver tilviljun að ríkisstjórn svíki það sem hún segir í stjórnarsáttmála sínum. Sjálfstæðisflokkurinn stendur í því að bera ábyrgð á því í nefndinni en Framsóknarflokkurinn stendur í því með því að láta það yfir sig ganga. Hæstv. landbúnaðarráðherra ber þess vegna fulla ábyrgð á því máli, hann getur ekki vikið sér undan því. Það er komið að lokadögunum í því máli og hæstv. ráðherra landbúnaðarmála mætir þá hér með ágætt mál til þess að fá tækifæri til að ræða það. Ég er sannfærður um að stjórnarandstaðan mun ekki láta sitt eftir liggja í þeirri umræðu. Hún mun taka langan tíma í sölum Alþingis, enda tímanum ekki betur varið. Menn þurfa á því að halda að vita hvert stefnir í þessum málum þegar kemur að þeim kosningum sem fram undan eru. Ég tel þess vegna að það leiði þó af því, sem má kalla gott, að hæstv. ráðherra mætir með þetta mál og það er þá hægt að nota það til að fara vel yfir það hvað menn ætla sér og vilja í þessum efnum.

Ég ætla að enda ræðu mína núna á því að endurtaka það að það er engin þörf á því að þetta mál fari í gegnum löggjöfina vegna þess að vatnalögin sem eiga að taka gildi á komandi hausti munu ekki gera það. Þeim verður auðvitað breytt, þau verða endurskoðuð upp á nýtt og menn munu auðvitað gera það með jákvæðum hætti en ekki neikvæðum, ekki með þeirri aðferð sem greinilega er hugsuð í átt til einkavæðingar, heldur með þeirri sömu aðferð og menn áttuðu sig á að væri skynsamleg þegar lögin voru sett 1923. Þar höfðu menn fyrir því að skoða þau mál mjög vandlega og komust að niðurstöðu sem var svo farsæl að þau lög standa enn í dag og hafa reynst mjög vel. Mér fyndist hæstv. landbúnaðarráðherra vera maður að meiri ef hann kæmi með skýrar yfirlýsingar um það hvort hann ætli að láta það yfir sig ganga að stjórnarsáttmálinn verði svikinn og einkavæðingarstefna ríkisstjórnarinnar í auðlindamálum þannig undirstrikuð.