Varnir gegn landbroti

Fimmtudaginn 01. mars 2007, kl. 12:03:02 (5723)


133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[12:03]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að menn eigi hól þegar ástæða er til og það verður að segjast að hæstv. landbúnaðarráðherra er fyrsti ráðherra ríkisstjórnarinnar sem kveður skýrt hér úr ræðustól upp úr með það að staðið verði við þennan stjórnarsáttmála hvað varðar auðlindir sjávar. Það hefur verið kallað eftir þessu hjá forsætisráðherra og iðnaðarráðherra og svörin hafa ýmist ekki komið eða verið svo óskýr að engin leið hefur verið að átta sig á því hvað menn væru eiginlega að fara. En hér kemur hæstv. landbúnaðarráðherra og segir það algjörlega skýrt að það verði staðið við ákvæðið í stjórnarsáttmálanum. Ég vek bara athygli manna á því að þetta er markverð yfirlýsing og full ástæða til að taka eftir henni. Það mun ekki standa á stjórnarandstöðunni að styðja það mál. Það liggja fyrir yfirlýsingar frá öllum stjórnarandstöðuflokkunum um að menn vilji standa að því að setja ákvæði inn í stjórnarskrá um sameign þjóðarinnar á auðlindum sjávar

Um málið sjálft er það að segja að það er óþarft. Það er engin þörf á að breyta lögum sem verða numin úr gildi á næstu mánuðum áður en þau verða sett til framkvæmda. Bara af þeim ástæðum er engin ástæða til að gera breytingar á þeim þó að ég skilji hæstv. ráðherra, að hann vilji reyna að klóra yfir yfirsjónir sínar. Síðan sagði hæstv. ráðherra að það gæti nú farið svo að ráðuneyti hans yrði sameinað öðrum ráðuneytum. Það skyldi þó ekki vera að það yrði ráðuneyti iðnaðar- og viðskiptamála og að Valgerður settist aftur í stólinn?