Varnir gegn landbroti

Fimmtudaginn 01. mars 2007, kl. 12:18:14 (5727)


133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[12:18]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þetta mál sem hæstv. landbúnaðarráðherra flytur hér undir heitinu varnir gegn landbroti felur það í sér eins og ég gat um í andsvari við upphaf umræðunnar að breyta lagagreinum í öðrum lögum, þ.e. í hinum umdeildu vatnalögum sem eru eitt umdeildasta mál sem hefur farið í gegnum þingið og þessi ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hefur beitt sér fyrir. Þessi vatnalög sem ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins beitti sér fyrir fela í sér einkavæðingu á vatni. Í 1. gr. þeirra laga stendur, með leyfi forseta: „Markmið laga þessara er skýrt eignarhald á vatni, skynsamleg vatnsnýting og hagkvæm og sjálfbær nýting vatns.“

Breytingin á þeim lögum sem hér þarf að gera er að fella vatnið undir séreignarrétt. Áður var fyrst og fremst um nýtingarrétt að ræða, eigandi lands gat nýtt sér vatnið innan skilgreindra marka á skilgreindan hátt en gat aldrei eignast vatnið. Með vatnalögum ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins um einkavæðingu á vatni segir í 2. gr., með leyfi forseta:

„Lög þessi taka til alls rennandi eða kyrrstæðs vatns á yfirborði jarðar og neðan jarðar, í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi, að svo miklu leyti sem önnur lög gilda ekki hér um.“

Þau vatnalög sem hæstv. landbúnaðarráðherra flytur hér breytingartillögu við taka til alls vatns, hvort sem það er kyrrstætt, rennandi, neðan jarðar, ofan jarðar, í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi. Það er verið að færa þetta vatn samkvæmt vatnalögunum undir séreignarrétt.

Eins og ég segi varð þetta frumvarp til laga afar umdeilt og lögðust þingmenn félagshyggjuflokkanna, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins, alfarið gegn einkavæðingu á vatni í því frumvarpi sem ríkisstjórnin þá lagði fram. Einkavæðingarflokkarnir, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, keyrðu þetta í gegn. Þó urðu þeir að bogna. Vilji þeirra var að vatnalögin, einkavæðing á vatni, kæmu strax til framkvæmda en þeir urðu að beygja sig fyrir því að kröfu stjórnarandstöðunnar að gildistöku þeirra laga var frestað og þau kæmu ekki til framkvæmda fyrr en 1. nóvember árið 2007, þ.e. eftir alþingiskosningar í vor. Það er alveg ljóst að þessir flokkar, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, Samfylkingin og Frjálslyndi flokkurinn, lýstu því yfir að þeir mundu beita öllu afli, bæði fyrir kosningar, í kosningabaráttunni og eftir kosningar, til að þessi lög tækju aldrei gildi. Með einkavæðingu á vatni er með svo grófum hætti gengið á almannahagsmuni að við getum aldrei samþykkt það. Þessi lög Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins um einkavæðingu á vatni voru samþykkt með því fororði að þau tækju ekki gildi fyrr en 1. nóvember árið 2007 og þá einmitt að undangengnum kosningum þar sem við vonum að verði hrein ríkisstjórnarskipti. Hverjum getur dottið í hug fáránlegra en að keyra í gegn einkavæðingu á vatni?

Hins vegar voru þessi vatnalög liður ríkisstjórnar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í því að eignfæra allt í að liðka fyrir og skapa, að þeim fannst, hagkvæmari grundvöll fyrir stórvirkjanir, fyrir virkjunaraðila sem fengju þar með rétt til að virkja í fallvötnum landsins, til þess að eignast vatnið og vatnstökuna. Vatnalögin voru liður í þessari virkjunarstefnu Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Það er athyglisvert að hæstv. landbúnaðarráðherra fer hér fremstur, sá ráðherra sem margir gerðu sér vonir um að mundi standa gegn þessari stefnu Framsóknarflokksins um einkavæðingu á vatni, enda var það fyrrverandi hæstv. iðnaðarráðherra, hæstv. núverandi utanríkisráðherra Valgerður Sverrisdóttir, sem dró þennan einkavæðingarvagn á vatninu í gegnum þingið.

Þegar síðan kom út í umræðuna, að áliðinni umræðu um einkavæðinguna á vatninu síðasta vetur, kom í ljós að iðnaðarráðherra hafði ekki sést fyrir í því kappi sínu að einkavæða vatnið til að geta ráðstafað því til virkjunaraðila. Iðnaðarráðherra hafði þá m.a. seilst inn á verksvið landbúnaðarráðherra, inn á það svið sem samkvæmt gildandi lögum heyrði undir landbúnaðarráðherra. Landbúnaðarráðherra hafði ekki tekið eftir þessu sjálfur. Ég vek athygli forseta á því. Hann hafði samþykkt það frumvarp í gegnum ríkisstjórnina. (Landbrh.: Ég samþykkti það sjálfur.) Já, og það er bara heiðarlegt. Landbúnaðarráðherra hefur lýst því í ræðustól að hann hafi ekki tekið eftir því að fyrra bragði. Hann hefur viðurkennt það enda er landbúnaðarráðherra heiðarlegur maður og bara viðurkennir að sér hafi orðið á mistök. Ég hef reynt hann að því, og bara gott um það.

Málið er samt miklu alvarlegra en svo að hægt sé að láta það eitt vera nóg. Nánast alveg í heild sinni er útilokað að þessi vatnalög komi nokkurn tímann til framkvæmda, enda lögðumst við gegn því. Það frumvarp sem landbúnaðarráðherra flytur nú, þar sem hann er að reyna að ná til baka verkefnum sem iðnaðarráðherra hafði seilst í og fært undir sitt ráðuneyti, er í sjálfu sér óþarfi ef vatnalögin koma aldrei til framkvæmda. Það er mjög skondið að flytja frumvarp um breytingar á lögum sem heyra undir allt annan ráðherra og allt annað ráðuneyti, breytingar á lögum sem enn þá er nærri hálft ár þangað til eiga að koma til framkvæmda og gera vonandi aldrei.

Það er líka athyglisvert að í frumvarpinu sem hæstv. landbúnaðarráðherra flytur hér segir að lög þessi öðlist þegar gildi. Þá eru þau farin að breyta lögum sem ekki eru komin í gildi. Vatnalögin eru ekki komin í gildi. Það er mjög skondið að landbúnaðarráðherra flytji frumvarp til laga um breytingar á lögum sem heyra undir annan ráðherra og ekki eru enn komin til framkvæmda. Ég skil hæstv. landbúnaðarráðherra svo að hann skammist sín fyrir að hafa staðið að þessum lögum á sínum tíma og þá væri kannski réttast að hann bæðist líka afsökunar á því og segði hér heiðarlega: Ég styð ekki vatnalögin. Ég styð ekki þann gjörning sem minn flokkur, Framsóknarflokkurinn, stóð að að keyra í gegn, þessi ósanngjörnu vatnalög, einkavæðingu á vatni.

Það er það sem ég held að jafnvel kjósendur hæstv. landbúnaðarráðherra vildu heyra, að hann bæðist afsökunar á því að hafa stutt einkavæðinguna á vatni sem fór í gegnum þingið.

Hins vegar eru hér örfá atriði sem ég vil samt vekja athygli á, fyrst um eignarnámsheimildirnar. Í gildandi vatnalögum og einnig í því frumvarpi sem ráðherra flytur nú er kveðið á um heimild til eignarnáms á vatni og vatnsréttindum. Nú hafa aðstæður gjörbreyst. Áður hugsuðu menn rennandi vatn fyrst og fremst til áveitu, til minni virkjana, til að afla sér neysluvatns eða þess háttar en núna er það virkjanaákefðin sem ræður öllu. Þá spyr maður sig: Hefði ekki verið ástæða til að endurskoða í þeim lögum þessi eignarnámsákvæði sem hæstv. ráðherra reynir nú að flytja yfir í lög um varnir gegn landbroti? Nú er tíminn orðinn miklu harðari en hann var áður og við heyrum t.d. deilurnar um áform Landsvirkjunar um virkjanir í Þjórsá þar sem eignarnámsheimildunum er sveiflað yfir landeigendum þar, að Landsvirkjun fái heimild til að taka land eignarnámi undir virkjanir í Þjórsá.

Nú hefur Atli Gíslason lögmaður, sem skipar fyrsta sæti Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Suðurkjördæmi, öflugur frambjóðandi og þekktur lögfræðingur, bent á að eignarnámsheimildum megi aðeins beita þegar afar rík almannaheill er í húfi og þess vegna sé fráleitt að hægt sé að veita eignarnámsheimildir á landi bara til einhverra virkjana fyrir einhvern ákveðinn aðila, eins og eina álbræðslu eða svo. Það er ekki hægt að segja að almannaheill sé í húfi hvað það varðar. Þess vegna held ég að það væri mjög nauðsynlegt að endurskoða þær heimildir sem lúta að eignarnámi, bæði samkvæmt vatnalögunum og einnig því frumvarpi sem hæstv. landbúnaðarráðherra flytur hér. En þar stendur, með leyfi forseta:

„Heimilt er ráðherra að taka fasteignir eignarnámi í þessu skyni.“ Reyndar er verið að tala þar um ef almannaheill kallar, en við þetta með almannaheill til að taka land eignarnámi fyrir einstaka virkjun held ég að megi setja stórt spurningarmerki.

Í lokin, frú forseti, verð ég að spyrja hæstv. forseta hvort forseti hafi kannað lögmæti þess að hér flytji einn ráðherra, landbúnaðarráðherra, frumvarp til breytingar á lögum sem annar ráðherra hefur í sinni forsjá. (Landbrh.: Hvernig var það í fyrra?) Við buðumst til að hjálpa hæstv. ráðherra þegar iðnaðarráðherra — en ég minni á að hæstv. iðnaðarráðherra á þeim tíma taldi sig vera í fullum rétti … (Gripið fram í.) Þá er spurning hvort þetta frumvarp eigi ekki að fara bæði til iðnaðarnefndar og landbúnaðarnefndar. Hér er verið að flytja frumvarp til laga um breytingar á lögum sem heyra undir allt annað ráðuneyti og allt aðra nefnd þannig að allt er þetta hálfbjagað. Það hefði verið fróðlegt að fá fyrrverandi iðnaðarráðherra sem nú er utanríkisráðherra, hæstv. ráðherra Valgerði Sverrisdóttur, til að gefa umsögn um þessa málsmeðferð. Hún sótti þetta mál af miklu kappi og taldi sig vera í fullum rétti til að taka þessi verkefni í nafni ríkisstjórnarinnar — það var ríkisstjórnarfrumvarp sem flutt var á sínum tíma — undir iðnaðarráðuneytið, enda var henni mikið í mun að ná öllu vatni undir það ráðuneyti til að geta síðan deilt því út til að áforma virkjanir fyrir stóriðju sem var hennar mesta áhugamál.

Ég bendi hæstv. landbúnaðarráðherra á það að vatnið rennur að stórum hluta eftir löndum bændanna. Hefði þá ekki bara allt vatn átt að heyra undir landbúnaðarráðuneytið? Af hverju er verið að skipta þessu svona? Hefði ekki hæstv. landbúnaðarráðherra átt að flytja frumvarp til laga um að vatnalögin í heild sinni yrðu felld niður og málefnið færi undir landbúnaðarráðherra á allt öðrum grunni? Ég held að það hefði verið réttast. Ég get ekki skilið að landbúnaðarráðherra sé sáttur við að hér komist í gildi vatnalög sem fela í sér einkavæðingu á vatni, lög sem taka til alls rennandi og kyrrstæðs vatns á yfirborði jarðar og neðan jarðar í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi, þetta verði allt saman bundið séreignarrétti. Það frumvarp sem hæstv. landbúnaðarráðherra flytur hér tekur ekki á þessum grundvallarþáttum vatnalaganna.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og reyndar stjórnarandstaðan öll vorum andvíg þessum vatnalögum. Við töldum að vatn væri í sjálfu sér sameign allra, sameign alls lífs og tilveru á jörðinni, að enginn einn, hvort sem hann héti Bónus eða hvaða fyrirtæki sem væri, gæti verið eigandi vatnsins sem auðlindar, heldur gæti fyrst og fremst haft ákveðin afnot og nýtingarrétt á því til skilgreindra verkefna.

Ég undirstrika í lok ræðu minnar að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að þessi lög um einkavæðingu á vatni, svokölluð vatnalög, komist í gildi. Þetta er eitt af þeim atriðum sem kosningarnar í vor koma til með að snúast um, hvort einkavæðing á vatni nær fram að ganga eins og Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa barist fyrir eða hvort vatnið sem auðlind verði í rauninni sameign alls lífs og allrar tilveru á jörðinni, uppspretta alls lífs og að enginn megi eignast það sem slíkt. Við umgöngumst það þannig að það sé sameign okkar allra.