Varnir gegn landbroti

Fimmtudaginn 01. mars 2007, kl. 14:24:01 (5750)


133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[14:24]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Eina blekkingin í málinu er afstaða Framsóknarflokksins gagnvart sínum félagsmönnum og kjósendum annars vegar og athafnirnar í þinginu hins vegar. Þar liggur blekkingin stóra. Verið er að halda því fram að flokkurinn berjist fyrir því að auðlindirnar eigi og skuli vera í sameign þjóðarinnar á sama tíma og tveir ráðherrar flokksins hafa á skömmum tíma farið fyrir einkavæðingu á vatninu, hæstv. ráðherra Valgerður Sverrisdóttir í annað skiptið og nú hæstv. landbúnaðarráðherra og varaformaður flokksins.

Auðvitað á að tryggja nýtingarréttinn o.s.frv. um leið og séreignarákvæði í stjórnarskrá er komið á. Hins vegar var það ekki gert til hliðar við einkavæðingu á vatninu eða stöðu sjávarútvegsmála í dag. Stjórnarskrárnefndin lauk störfum með þeim hætti að það náðist ekki samkomulag um málið út af afstöðu stjórnarflokkanna. Það var algjör einhugur og fyrir því barist af hálfu fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna og annarra í auðlindanefnd að sameignarákvæðið í stjórnarskrá væri algjört grundvallarmál í allri umræðunni. Framsóknarflokkurinn hopaði í málinu og gaf eftir. Hefðu fulltrúar Framsóknar í nefndinni staðið með samvisku sinni, sannfæringu og stjórnarandstöðunni í málinu hefði nefndin einfaldlega lokið störfum með því að einangra Sjálfstæðisflokkinn í málinu, skilja hann frá, og einn stærsti pólitíski sigur liðinna ára hefði unnist, að tryggja sameign þjóðarinnar á auðlindum sínum í stjórnarskrá, gífurlega mikilvægt mál.

Hæstv. ráðherra nefndi þjóðlendumálið sem var eitt af þeim málum sem var gert upphaflega með jákvæðum fyrirætlunum en var snúið upp í herferð gegn bændum og landeigendum ríkisvaldinu til mikillar minnkunar, alveg skelfilegt mál. Við ræðum það betur síðar.