Varnir gegn landbroti

Fimmtudaginn 01. mars 2007, kl. 14:31:14 (5754)


133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[14:31]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Það sem sjálfstæðismaðurinn, hv. þm. Kjartan Ólafsson, 8. þm. Suðurlands er að gera er að reyna að afvegaleiða umræðuna. Hann reynir að færa umræðu um grundvallaratriði yfir í umræðu um smáatriði. Við getum týnt okkur í tæknilegum útfærsluatriðum í viðamiklu máli eins og vatnalögum, að sjálfsögðu. En forsenda slíkrar umræðu er að hafa fyrst rætt grundvallaratriðin. Út á hvað gengu vatnalögin? Þau gengu út á að einkavæða vatnið. Þau gengu út á að tryggja séreignarákvæði og séreign á vatni áratugi inn í framtíðina. Það blasir við öllum lifandi mönnum, hvort sem það er í Ísrael eða á Íslandi, að vatnið er verðmætasta auðlind framtíðarinnar.

Háttvirtir stjórnarliðar geta ekkert falið sig bak við útúrsnúninga um fyrirhleðslur, farið að tala um virkjunarmál ofan í einkavæðingu á vatni og einhverja vitleysu bara. Við erum að tala um algjört grundvallarmál, sameign íslensku þjóðarinnar á auðlindum okkar. Um þetta hefur ítrekað brostið á með miklum deilum, m.a. fyrir kosningar, eins og fyrir fjórum árum þegar rætt var um sjávarútvegsmálin. Hver veit nema auðlindamálin í heild sinni verði eitt af stóru kosningamálunum í vor. Ég ætla að spá því. Hér er aftur deilt um einkavæðingu á vatni. Hæstv. landbúnaðarráðherra velti þeim steini af stað í morgunsárið með sakleysislegu máli, sem reyndist breytingartillaga við vatnalögin þegar á reyndi.

Við höfum rætt um hana síðan og örugglega eitthvað áfram. Ég tala nú ekki um þegar málið kemur út úr nefnd, komi það einhvern tíma út úr nefnd. Eins og ég segi þá vekur þetta upp marga drauga og sársaukafullar minningar fyrir ríkisstjórnina.