Varnir gegn landbroti

Fimmtudaginn 01. mars 2007, kl. 14:33:36 (5755)


133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[14:33]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Ég hef tiltölulega stutt innskot í þessa umræðu. Hér er á dagskrá frumvarp um varnir gegn landbroti. Í fljótu bragði virðist málið tiltölulega saklaust enda tilraun til að gera breytingu á lögum sem ekki eru orðin lög, svo skringilega sem það kann að hljóma. Það hefur verið farið út um víðan völl af skiljanlegum ástæðum. Þar sem málið snertir vatnalög og eignarrétt á vatni þá hafa menn fjallað um einkaeignarrétt landeigenda og stöðu þeirra annars vegar og þjóðarinnar hins vegar að því er varðar eignarhald á auðlindum almennt. Það er auðvitað ákaflega stór og áleitin spurning í íslenskum stjórnmálum, þ.e. hvernig eigi að standa að því að sameiginlegar auðlindir séu tryggilega í höndum þjóðarinnar sjálfrar en ekki annaðhvort gefnar eða seldar á tombóluprís til einkaaðila eða einstaklinga, eins og við höfum orðið vitni að í tengslum við fiskinn í sjónum. Sú auðlind er að mínu mati og mikils meiri hluta þjóðarinnar sameiginleg eign íslensku þjóðarinnar.

Umræðan um sjávarútveginn, fiskveiðimál, kvótann og eignarréttinn, var eitt stærsta kosningamálið árið 2003. Í allri stjórnmálaumræðu fyrir þær kosningar var tekist á um fiskveiðikerfið og því máli lauk í raun þannig að Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur sem höfðu stutt kvótafyrirkomulagið og framsal kvótans gáfu eftir á endasprettinum, þeir áttuðu sig á hver hugur þjóðarinnar var. Þegar þeir mynduðu aftur nýja ríkisstjórn gerðu þeir stjórnarsáttmála þar sem kveðið var á um, sem stendur enn, að sett skuli ákvæði í stjórnarskrá um að auðlindir sjávar séu sameign þjóðarinnar. Þetta sló að einhverju leyti á óánægjuna og kurrinn sem ríkti í þjóðfélaginu og þetta var loforð sem stjórnarflokkarnir gáfu, (Landbrh.: Loforð um hvað?) loforð í stjórnarsáttmálanum um að sameign þjóðarinnar væri tryggilega innsigluð með ákvæði í stjórnarskránni. (Landbrh.: Þetta er rétt.) Þetta er rétt, segir hæstv. landbúnaðarráðherra. En ég þarf ekki að leita hans til staðfestingar á þessu. Þetta veit öll þjóðin.

Nú gerist það í umræðu um varnir gegn landbroti að hæstv. landbúnaðarráðherra sér ástæðu til að standa upp, kannski að gefnu tilefni, kannski af því að samviska hans kallar eftir því, og gefur þá yfirlýsingu að staðið verði við þetta loforð. Framsóknarflokkurinn stendur við sín loforð, sagði hæstv. landbúnaðarráðherra, enda vaskur maður og traustur á velli. Hann tvístígur skörulega í kringum mig og fer ekkert milli mála að hann ætlar að standa við þessa yfirlýsingu, hina stórmerku stjórnmálayfirlýsingu að Framsóknarflokkurinn standi við loforð sín og muni standa við það loforð í stjórnarsáttmálanum að ákvæði verði sett inn í stjórnarskrána um sameign þjóðarinnar á auðlindunum í sjónum.

Í dag er 1. mars og mér skilst að eftir séu sex eða sjö þingdagar þar sem þingið kemur saman og tekur sameiginlegar ákvarðanir, setur lög eða staðfestir yfirlýsingar. Það er því ljóst að ef einhverjar breytingar verða lagðar til á stjórnarskránni þá þarf að leggja þær fyrir þingið að samþykkja. Mér hafa borist þær fréttir, sem eru ekkert leyndarmál, að stjórnarskrárnefnd líti nánast á það svo að hún hafi lokið störfum og ekki náð samkomulagi um eitt einasta atriði, nema einhverjar tilfærslur og lagabreytingar, breytingar að því er varðar íbúakosningu eða almennar kosningar sem Alþingi er sammála um að leggja fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er allt og sumt sem kemur úr starfi þessarar stjórnarskrárnefndar og hvergi er minnst á það enn sem komið er að samkomulag verði um að stjórnarskrárákvæði sé bætt við og lagt undir þjóðina að auðlindin í sjónum verði sameign þjóðarinnar.

Ég fagna þessari yfirlýsingu hæstv. landbúnaðarráðherra, varaformanns Framsóknarflokksins. Ég stend heils hugar með honum ef á þetta þarf að reyna. Ég geri ráð fyrir því að öll stjórnarandstaðan sé einhuga á bak við ráðherrann um að knýja þetta fram í nefndarstarfinu. En þar fer hver að verða síðastur. Ég held að bæði ég, þingið og þjóðin öll bíði með nokkurri eftirvæntingu eftir efndum á þessu síðasta loforði ráðherrans. Ég efast ekki um að hugur hæstv. ráðherra stendur til þess að efna þetta loforð. Hann er maður til þess og hann upplýsti okkur um það áðan að 90% af hv. þm. Björgvini Sigurðssyni væri bara vatn. Það gildir víst um okkur hina líka. En ég hef eiginlega alltaf verið á því að það sé eitthvað meira en vatn í hæstv. ráðherra, meiri töggur í honum en í okkur hinum. Að því leyti ber ég fullt traust til hans núna þegar hann gefur þessa yfirlýsingu og segir: Framsókn ætlar að standa við sitt loforð. Nú bíðum við spennt næstu sex dagana.