Varnir gegn landbroti

Fimmtudaginn 01. mars 2007, kl. 14:43:08 (5757)


133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[14:43]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það liggur við að undirritaður sé hrærður eftir að heyra þessi lofsamlegu ummæli. En þau eru ekki það sem skiptir máli í þessari umræðu heldur hitt að við höfum talað um háalvarlegt pólitískt hitamál sem snertir alla þjóðina: Hver hafi eignarhaldið á auðlindinni í sjónum?

Ég hef ekki skilið það öðruvísi en svo að þegar Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur gera með sér samkomulag um að mynda ríkisstjórn og þeir skrifa undir stjórnarsáttmála sem kveður á um að það skuli sett skuli ákvæði inn í stjórnarskrána um að fiskurinn í sjónum sé sameign þjóðarinnar þá sé Sjálfstæðisflokkurinn líka þeirrar skoðunar, annars færi hann ekki að skrifa undir þetta. Jafnvel þó að þetta sé niðurstaða samninga eða einhver málamiðlun. Ég held að það sé ríkjandi skoðun að þjóðin eigi þessa auðlind. Mér finnst það til háborinnar skammar ef stjórnarflokkarnir ætla að svíkjast undan merkjum og bregðast þjóðinni með því að ganga ekki frá einu af grundvallaratriði stjórnarsamstarfsins.

Ég endurtek mínar bestu kveðjur og óskir í baráttu framsóknarmanna ef þeir eiga í stríði við sjálfstæðismenn. Ég held hins vegar að tekið verði eftir því um allt land ef svíkja á menn um þetta ákvæði í stjórnarsáttmálanum.