Varnir gegn landbroti

Fimmtudaginn 01. mars 2007, kl. 15:04:29 (5760)


133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[15:04]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var í rauninni fróðlegt að hlusta á hv. þm. Kristin H. Gunnarsson þar sem hann talaði hart til þess flokks sem fóstraði hann í heil átta eða níu ár og hann var þar góður liðsmaður en er nú farinn og horfinn. Hann minnti mig á hinn mikla kvenskörung úr kjördæmi hans — þó að ekki sé hann nú kvenlega vaxinn — þegar hann réðist að Framsóknarflokknum, Guðrúnu Ósvífursdóttur, sem sagði einhvern tíma: „Þeim var ég verst er ég unni mest.“ (ÖS: En Framsóknarflokkurinn var aldrei vondur við hana.) (JÁ: Þér hefur sárnað.) Nei, nei, mér sárnaði ekkert, en ég sé í hvaða stöðu hinn fjölhæfi þingmaður, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, er.

Ég hef svarað öllu úr þessum ræðustól um þjóðareign á sjávarútvegsauðlind nánast í hverri einustu ræðu þannig að hv. þingmaður veit skoðun mína og það þýðir ekkert að skamma Framsóknarflokkinn látlaust fyrir það að vilja standa við það ákvæði sáttmálans. Menn verða þá að skamma þá sem ekki vilja það ef þeir eru einhverjir. (Gripið fram í.) Tíminn leiðir það í ljós.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson spurði út í eignarnám. Það er alveg ljóst að það er flókin aðgerð og það er auðvitað skýring á því eins og segir í lögunum:

„Nú þykir tjón eða hætta búin eign annars manns eða réttindum af mannvirkjum slíkum sem í 1. lið segir, eða að af þeim mundu stafa óhæfilegar tálmanir almennri umferð eða tjón eða hætta hagsmunum almennings, og má þá því aðeins framkvæma verkið, að leyfi ráðherra komi til. Leyfi má binda þeim skilyrðum, sem nauðsynleg þykja vegna hagsmuna ríkisins, almennings eða einstakra manna.“

Þetta er alveg skýrt og er auðvitað alveg skýrt í lögunum eins og þau standa í dag.