Varnir gegn landbroti

Fimmtudaginn 01. mars 2007, kl. 15:26:51 (5767)


133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[15:26]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér flutti hv. þm. Össur Skarphéðinsson í andsvari eina af sínum bestu ræðum. Hann fór orðrétt með ræðu hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra um sjávarútvegsauðlindina og stefnu Framsóknarflokksins í því máli. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Hann hefur heyrt það í gegnum formann Framsóknarflokksins að okkur er mikil alvara í því, eins og öllu sem við höfum sett fram sem stefnumið og stjórnarsáttmála, að það gerist eins og um var talað.

Svo vil ég að lokum þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir drengilega yfirlýsingu. Hv. þingmaður er langsterkasti þingflokksformaður stjórnarandstöðunnar og ræður miklu í því starfi og hefur nú lýst því yfir að hann muni ganga í lið með landbúnaðarráðherra að landbrotsmálin færist aftur örugglega heim í landbúnaðarráðuneytið og Landgræðsluna. Ég þakka þennan góðan vilja og sé að málið er í höfn, hæstv. forseti.