Varnir gegn landbroti

Fimmtudaginn 01. mars 2007, kl. 15:28:08 (5768)


133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[15:28]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég á engar þakkir skildar í þessu máli. Fyrst og fremst vil ég fyrir hönd þeirra sem hér hafa hlustað á ræður forustumanna Framsóknarflokksins þakka þeim fyrir að hafa loksins á lokaspretti þessa þings rifið upp í sig kjark, tekið á sig rögg og lýst því yfir að þeir ætli að láta á það reyna hvort stjórnarskránni verði breytt þannig að í hana verði tekið sameignarákvæði sem felur í sér að þjóðin mun um aldur og ævi bera sameiginlegt eignarhald á sjávarauðlindinni.

Frú forseti. Þetta eru söguleg tíðindi sem ekki hafa gerst lengi vegna þess að í þessum þingsal hefur skapast nýr þingmeirihluti fyrir grundvallarmáli, þ.e. það liggur alveg ljóst fyrir að Framsóknarflokkurinn hefur sagt að hann muni neyta alls síns afls til að ná í gegn þessari mikilvægu stjórnarskrárbreytingu og hann nýtur stuðnings stjórnarandstöðunnar í því máli. Með öðrum orðum hefur þá skapast hreinn þingmeirihluti (Gripið fram í.) í þessu máli og við munum síðan sjá hvort Sjálfstæðisflokkurinn lætur beygja sig eða ekki en ljóst er að miðað við það að forustumenn Framsóknarflokksins séu menn sinna orða, og ég dreg engan efa inn í það mál, munum við áður en þinginu sleppir fá að greiða atkvæði um það hvort stjórnarskránni verði breytt þannig að inn í hana komi ákvæði sem feli það í sér að sjávarauðlindin í hafinu verði um aldur og ævi þjóðareign.

Þetta eru söguleg tíðindi og hvort þetta á eftir að draga á eftir sér slóða varðandi ríkisstjórnarsamstarfið sjáum við á helginni.