Varnir gegn landbroti

Fimmtudaginn 01. mars 2007, kl. 18:14:20 (5824)


133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[18:14]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í stuttu andsvari get ég ekki farið langt út í einstök efnisatriði. Í fyrsta lagi verður hv. þingmaður að leita upplýsinga um þau stjórnarskrárfrumvörp og þær breytingartillögur sem um er að ræða hjá flokksforingja sínum vegna þess að þetta hefur verið rætt á fundum í hópi leiðtoga flokkanna og ég tel mig ekki hafa umboð til að taka það út fyrir þann hóp og hingað inn í þingsal.

Í öðru lagi læt ég í ljós þá skoðun að þegar við veltum fyrir okkur eignarréttindum á t.d. auðlindum aðgreinum við eign á auðlindinni frá eign á rétti til nýtingar eða afnota. Þetta er auðvitað alkunnugt í öllum atvinnurekstri, t.d. landbúnaði og sjávarútvegi.

Vegna ummæla hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni og fleirum í umræðunum áðan endurtek ég og árétta að ákvæðið í samstarfssamningi ríkisstjórnarinnar sem hér er rætt kveður á um sameign þjóðarinnar á auðlindum með þeim hætti sem styrkir og staðfestir löggjafarvald Alþingis varðandi afnota- og nýtingarrétt og styrkir þannig og staðfestir gildandi fiskveiðistjórnarkerfi en vefengir það ekki eins og stjórnarandstaðan gerir. Þess vegna eru yfirlýsingar hv. stjórnarandstæðinga um stuðning við tillögu um þetta einungis staðlausir stafir.