133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn.

668. mál
[11:01]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Frumvarpið sem ég hef nú lagt fram vísar til rannsóknar á liðnum tíma. Hv. þingmaður spyr um ástandið eins og það snýr við fyrrverandi skjólstæðingum tveggja stofnana sem hér hafa verið mjög til umræðu og það er sjálfsagt að svara þeirri spurningu eftir bestu getu.

Ríkisstjórnin ákvað að setja á laggirnar sérstök teymi sérfræðinga, tvö teymi sérfræðinga til að annast umrædda skjólstæðinga, eitt teymi fyrir skjólstæðinga Byrgisins og annað fyrir fyrrverandi vistmenn á Breiðavíkurheimilinu. Mér er kunnugt um að í þessa vinnuhópa réðust mjög færir sérfræðingar sem hafa lagt fullan faglegan metnað sinn í þessi viðkvæmu og erfiðu mál. Mér hefur komið fullkomlega á óvart að heyra þær umkvartanir sem borist hafa frá Geðhjálp og ég hef auðvitað líka tekið eftir því að þeir sem ábyrgð bera á þessum málum innan heilbrigðiskerfisins og hjá landlækni kannast ekki við þessar ásakanir og bera þær af sér. (Gripið fram í.) Ég vona að hið sanna komi í ljós í þeim efnum en aðalatriðið er að umræddir einstaklingar fái þá þjónustu sem þeir þurfa og eiga rétt á og sem ákveðið hefur verið að grípa til sérstakra aðgerða til að tryggja að þeir fái.

Nú er það samt þannig að einstakir ráðherrar, hvorki ég né heilbrigðis- eða félagsmálaráðherra höfum aðstöðu til eða eigum að fylgjast með því hvernig einstakir sjúklingar eða aðilar sem leita til heilbrigðiskerfisins fái þjónustu og við getum ekki blandað okkur í málefni einstaklinganna með þeim hætti. Það held ég að öllum hljóti að vera ljóst en það er alveg skýrt að eftir því sem við best vitum þá er þessi þjónusta í fullum gangi, hún á að vera af besta tagi, besta þjónusta sem völ er á hér á landi hvað þetta varðar og ég vona svo sannarlega að allir þeir sem þurfa á henni að halda gefi sig fram við rétta aðila.