133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn.

668. mál
[11:09]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður lét þess réttilega getið að hann hefði kannski ekki tekið vel eftir. Ég sagði í framsöguræðu minni, með leyfi forseta, að það ætti að láta fara fram rannsókn á því hvernig rekstri vistheimilisins Breiðavíkur var háttað á árabilinu 1950–1980 og eftir atvikum hliðstæðra stofnana og sérskóla þar sem börn dvöldu. Hins vegar er mikilvægt, frú forseti, að þetta mál sé tekið skipulegum tökum, að það sé farið skipulega í hvert mál fyrir sig og það verði byrjað á Breiðavíkurmálinu sem er upphaf þessa máls, hvað varðar vist á meðferðarheimili. Síðan verða menn í ljósi reynslunnar sem af því fæst að meta hvort það þjónar skynsamlegum tilgangi að halda áfram með fleiri stofnanir.

Vissulega er Heyrnleysingjaskólinn eitt slíkt mál sem mér finnst fyllilega koma til greina að rannsaka og það sem fram hefur komið um það er auðvitað mjög dapurlegt og íslenska ríkinu til vanvirðingar ef rétt er, allar þær ásakanir sem fram hafa komið í sambandi við þá stofnun. En það er mikilvægt að þetta sé vel gert, þetta sé rétt gert, að hugað sé að réttindum allra þeirra sem að þessu máli koma og að þessu vinni fagmenn sem kunna til verka. Þess vegna er m.a. gert að skilyrði að formaður nefndarinnar uppfylli starfgengisskilyrði héraðsdómara og það er ekkert launungarmál og hefur komið fram af minni hálfu að ég hef falast eftir starfskröftum Róberts Spanós, prófessors í lögum, að hann taki að sér formennsku í nefndinni.

Hvað varðar síðan Byrgið og þá sem þar eru þá er þetta mál sem hér er til meðferðar ekki sérstaklega hugsað vegna Byrgisins, það liggur alveg fyrir. Hvort hægt er að útvíkka það í þá átt er önnur saga en þau atriði sem hv. þingmaður var að vísa til varðandi Byrgið eru nú í sérstakri lögreglurannsókn og eru sakamál.