133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn.

668. mál
[11:37]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessar upplýsingar. Það hefur þá komið skýrt fram af hálfu hæstv. ráðherra að jafnvel þó að nefndin teldi æskilegt að skoða Byrgið hefur hún ekki lagalega heimild til þess eins og frumvarpið er úr garði gert. Mér þykir það afar miður. Málinu er vísað í lögreglurannsókn vegna niðurstöðunnar sem kom fram hjá Ríkisendurskoðun þar sem fyrst og fremst var verið að tala um fjármálaóreiðuna þannig að það hlýtur fyrst og fremst að vera fjármálahliðin sem verið er að skoða. Ég tel mikilvægt að víkka út gildissvið nefndarinnar þannig að hún hafi heimild til að skoða Byrgið. Ég hvet nefndarmenn í allsherjarnefnd að skoða hvort ekki sé ástæða til þess að gera það.

Varðandi skipan nefndarinnar í 5. gr., sem hæstv. forsætisráðherra fór inn á, þá skýrði hann nánar skipan nefndarinnar. Hann nefndi ekki hvað þetta ætti að vera fjölmenn nefnd en taldi að hún ætti að vera fámenn. En það er mjög óvenjulegt að ekki sé sett í frumvarp af þessu tagi, þegar á að fara að skipa nefndir í mikilvægum málum, frekari leiðsögn í lagafyrirmælum en hér kemur fram. Það er vísað á erindisbréfið og ég tel mikilvægt að sjá hvernig það er úr garði gert. Eins og ég nefndi áðan hefði ég viljað fá fram hjá hæstv. ráðherra hvort erindisbréfið verði lagt fyrir nefndina til skoðunar þannig að hún geti glöggvað sig betur á því hvernig starfi nefndarinnar verður háttað.

Ég vil líka spyrja, af því að hæstv. ráðherra kom ekki inn á það sem ég nefndi: Hvað verður gert til að auka eftirlit með meðferðarheimilum barna og unglinga sem nú eru starfandi? Er verið að vinna eitthvað að því? Það er mikilvægt að við lærum af reynslunni núna en ekki einhvern tíma síðar.