133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn.

668. mál
[12:48]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Frú forseti. Ég hef setið og hlustað á þessa umræðu með athygli og af nokkrum áhuga vegna þess að þetta er angi af máli sem hefur verið mjög á dagskrá í samfélagi okkar undanfarnar vikur og ekki að ástæðulausu. Í umræðunni hefur verið farið dálítið um víðan völl og ekkert við því að segja og eðlilegt vegna þess að þetta mál er sprottið af atburðum og frásögnum af meðferð á meðferðarheimilum hjá börnum sem fullorðnum.

Að gefnu tilefni vegna ummæla fyrr í þessari umræðu tel ég mér skylt að geta þess og upplýsa hæstv. forsætisráðherra um það að þó að hann viti ekki betur en að málefni og umönnun þeirra sem þarna hafa orðið fórnardýr séu í góðum farvegi veit ég fyrir víst eftir kynni af því og fræðslu að því miður er það ekki svo. Alveg fram á síðustu daga hafa fórnarlömbin frá Byrginu búið við þær aðstæður að eiga hvergi höfði sínu að halla og leitað aðstoðar eins og að hefur vonandi verið stefnt. Ég held að það sé full ástæða fyrir stjórnvöld að kippa því í lag og taka utan um það mál.

Ég þarf ekki að hafa svo sem langa ræðu um málið en vildi bara koma að þeim sjónarmiðum mínum að þetta frumvarp er ágætt svo langt sem það nær og er áreiðanlega af góðum huga flutt en gengur of stutt, er of þröngt og gengur of stutt. Það er tvennt sem ég staldra við, annars vegar að það snýr aðeins að börnum. Ég held að þetta mál sé miklu umfangsmeira eins og við öll vitum en svo að það sé einskorðað við vandamál barna sem lenda á meðferðarheimilum. Þetta vandamál sem við blasir gildir líka um fullorðið fólk. Mér finnst ótækt og óviðunandi að hér sé gripið til lagasmíðar um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn, það á að vera víðtækara og hafa punkt á eftir „starfsemi vist- og meðferðarheimila“.

Hitt atriðið sem ég geri athugasemd við er að sú heimild sem lögin eiga að veita tekur ekki til þeirra stofnana sem starfandi eru við gildistöku þessara laga. Það er svo sem allt gott um það að segja að við leggjumst í vinnu við að grafa upp gamlar beinagrindur og reyna að fá niðurstöður í mál sem áttu sér stað fyrir jafnvel áratugum síðan en auðvitað eru vandamálin miklu nærtækari og þau eru viðvarandi. Það er alveg ljóst held ég af öllum staðreyndum málsins og frásögnum að hér þarf að gera mikla bragarbót á skipulagi og starfsemi meðferðarheimila almennt. Það eru mjög miklar brotalamir á skipulaginu og ég held að viðfangsefnið sé náttúrlega að upplýsa það sem ábótavant hefur verið í fortíðinni en fyrst og fremst að finna út hver hugmyndafræðin á að vera á bak við starfsemi eins og þessa. Hver er tilgangurinn með meðferðarheimilunum og hvað þarf til svo að þau beri einhvern árangur?

Ég held að það sé hægt að segja með sanni að það hafi komið í ljós í umræðunni um Byrgið, svo að ég nefni það, að þar skorti ekki bara á fjármálalegt eftirlit heldur líka faglegt skipulag og eftirlit. Þarf ekki að lýsa því frekar nema eftir því sé spurt.

Hugsunin á bak við þetta frumvarp er eins og fyrr segir virðingarverð og þjónar áreiðanlega ákveðnum tilgangi en ef stjórnvöld hafa af þessu áhyggjur, sem eðlilegt er og gefur augaleið, þurfa þau auðvitað að bregðast við með því að reyna að skapa sér og móta þá hugmyndafræði sem býr að baki því að þurfa að senda fólk á slík meðferðarheimili. Þegar sett er á stofn nefnd af þessu tagi finnst mér að hún eigi fyrst og fremst að hafa það hlutverk að finna út og leggja drög að því hvernig eigi að framkvæma rétta meðferð.

Hér er verið að tala um að rannsaka mál þar sem hægt er að finna út að börn hafi fengið illa meðferð, eins og segir hér í b-lið 1. gr., með leyfi forseta:

„Að leitast við að staðreyna eins og kostur er hvort og þá í hvaða mæli börn sem vistuð voru á stofnuninni hafi sætt illri meðferð eða ofbeldi meðan á dvölinni stóð.“

Þetta er auðvitað nauðsynlegt og sjálfsagt en hvað framtíðina varðar þurfum við að finna út hver hin rétta meðferð eigi að vera. Þetta leyfi ég mér að segja vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að meðferð og starfsemi og skipulag meðferðarheimila sem nú eru starfandi sé á villigötum. Það er ekkert skipulag, ekkert eftirlit og engin fagleg þekking sem býr að baki þessari meðferð, því miður. Ég vil ekki alhæfa en ég held að þau mál sem hafa verið hér til umræðu hafi sýnt fram á þessa staðreynd.

Ég held, frú forseti, að þetta mál þurfi að fá framgang þó að lítill tími sé til stefnu en ég held að það þurfi að víkka það mjög út vegna þess að í þeim búningi sem það er í núna er það máttlaust og nær engan veginn yfir það vandamál sem við höfum horfst í augu við á undanförnum vikum.