Áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa

Fimmtudaginn 08. mars 2007, kl. 20:39:40 (6025)


133. löggjafarþing — 84. fundur,  8. mars 2007.

áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.

385. mál
[20:39]
Hlusta

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa frá samgöngunefnd. Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fjölda gesta.

Frumvarp þetta var lagt fram á síðasta löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga og er nú lagt fram með nokkrum breytingum. Helstu breytingar frá fyrra frumvarpi eru á orðalagi og uppsetningu auk breytinga á ákvæðum um atvinnuréttindi skipstjórnar- og vélstjórnarmanna sem gerðar hafa verið að tillögu hagsmunaaðila. Með frumvarpinu er verið að laga íslenska löggjöf að alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafnar fiskiskips (STCW-F) sem samþykkt var á fundi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) árið 1995. Þá felur frumvarpið í sér heildarendurskoðun á lögum um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna á íslenskum skipum, nr. 112/1984, með síðari breytingum, og lögum um atvinnuréttindi vélfræðinga, vélstjóra og vélavarða á íslenskum skipum, nr. 113/1984, með síðari breytingum. Meginmarkmið frumvarpsins er að tryggja öryggi íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtiskipa og annarra skipa sem ekki teljast farþegaskip eða flutningaskip og áhafna þeirra. Í frumvarpinu er leitast við að ná þessu markmiði, m.a. með því að gera tilteknar kröfur um lágmarksfjölda manna í áhöfn skipa og um menntun, þjálfun, aldur, siglingatíma, heilbrigði, sjón og heyrn þeirra sem starfa um borð og tryggja með því faglega hæfni áhafna þeirra skipa sem lögin taka til.

Auk ýmissa orðalagsbreytinga leggur nefndin til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:

1. Lagt er til að skilgreiningu á hugtakinu „önnur skip“ í 30. tölul. 3. gr. frumvarpsins verði breytt þannig að fellt verði út það skilyrði að slík skip séu notuð í atvinnuskyni. Með þessari breytingu vill nefndin árétta að lögin gildi einnig um áhafnir björgunarskipa. Eðlilegt þykir að sömu kröfur séu gerðar til áhafna björgunarskipa og áhafna annarra skipa.

2. Lagt er til að í 1. mgr. 11. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um heimild Siglingastofnunar Íslands til að afturkalla skírteini, að uppfylltum tilteknum skilyrðum, verði tiltekið að við afturköllun skírteinis skuli fara eftir ákvæðum stjórnsýslulaga. Þykir rétt að taka af öll tvímæli um að afturköllun skírteinis sé stjórnvaldsákvörðun sem falli undir gildissvið stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

3. Lagt er til að í 12. gr. frumvarpsins verði mælt fyrir um að á skipi sem er styttra en 12 metrar að skráningarlengd megi skipstjóri vera hinn sami og vélavörður sé hann eini réttindamaðurinn í áhöfn, enda taki vinnu- og hvíldartími mið af 64. gr. sjómannalaga. Jafnframt er lagt til að í 1. tölul. a-liðar 3. mgr. 12. gr. frumvarpsins verði kveðið á um að á skipi sem er styttra en 12 metrar að skráningarlengd megi vélavörður vera hinn sami og skipstjóri sé hann eini réttindamaðurinn í áhöfn, enda taki vinnu- og hvíldartími mið af 64. gr. sjómannalaga. Þykir eðlilegt að í framangreindum tilvikum sé gætt samræmis við 64. gr. sjómannalaga.

Mér þykir rétt, virðulegi forseti, að geta þess hér að nefndin fjallaði um það og telur eðlilegt að þeir sem áður voru nefndir vélgæslumenn hafi hin svokölluðu vélavarðaréttindi.

4. Samkvæmt 21. gr. frumvarpsins munu lögin öðlast gildi 1. maí 2007. Lagt er til að gildistökunni verði frestað til 1. janúar 2008 til að gefa þeim aðilum er lögin munu taka til og ekki hafa aflað sér tiltekinna réttinda (skírteina) möguleika á að hefja nám í Fjöltækniskóla Íslands enda taki skólinn mið af lagasetningu þessari við upphaf skólaárs í ágúst næstkomandi.

Virðulegi forseti. Mér þykir rétt að geta þess sérstaklega að nefndin tekur þá ákvörðun að fresta gildistöku laganna með tilliti til þeirra aðila sem ekki hafa áskilin réttindi eða ekki náð sér í tilskilin réttindi og þar með að gefa þeim möguleika á að afla sér réttinda og skírteinis fyrir áramót. Það eru meginrökin fyrir því að ákvæðinu er frestað og í trausti þess að þeir aðilar taki sig á og hefji nám í Fjöltækniskólanum að hausti komanda.

5. Lagt er til að í 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða og í töflu í viðauka verði sérstaklega tiltekið að þeir sem þegar hafa öðlast 30 brúttórúmlesta atvinnuréttindi haldi þeim réttindum. Með þessari breytingu vill nefndin árétta að þeir sem hafa á annað borð öðlast tiltekin réttindi skuli halda þeim réttindum óskertum, sbr. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir, Hjálmar Árnason og Kristján L. Möller voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið rita hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, Guðjón Hjörleifsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Sigurrós Þorgrímsdóttir, Jón Kristjánsson, Guðjón A. Kristjánsson.