Skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra

Föstudaginn 09. mars 2007, kl. 15:47:11 (6085)


133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

skyldur erlendra fyrirtækja og starfskjör starfsmanna þeirra.

541. mál
[15:47]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það mál sem við ræðum og sú umræða sem fer fram staðfestir það að Frjálslyndi flokkurinn hefur hrundið af stað mjög málefnalegri og þarfri umræðu í samfélaginu sem hefur getið af sér m.a. frumvarpið sem við ræðum og umræðu sem þörf hefur verið á. Ég er sannfærður um að umræðan sem Frjálslyndi flokkurinn hóf hafi verið nauðsynleg, algjörlega.

Þegar maður verður vitni að viðbrögðum ýmissa í samfélaginu, þ.e. ráðandi afla og annarra stjórnmálaafla, sérstaklega stjórnarliðsins, sem hafa verið krampakennd, og síðan almennings sem hefur hlustað á, þá eru þetta ólík viðhorf og ólík viðbrögð. Almenningur hefur fagnað umræðunni sem Frjálslyndi flokkurinn hefur hrundið af stað. Sú umræða birtist m.a. í frumvarpinu sem felur í sér þrennt: Í fyrsta lagi að tryggja starfskjör og aðbúnað starfsmanna, í öðru lagi að jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja sem stunda atvinnustarfsemi hér á landi og í þriðja lagi að auka skilvirkni eftirlits og gera stjórnvöldum kleift að hafa yfirsýn yfir vinnumarkaðinn.

Þetta er afleiðingin. En hvernig hafa viðbrögð sérstaklega stjórnarliða og málgagna stjórnarliðsins verið? Þau hafa verið krampakennd og ofsafengin. Ég leyfi mér að segja það og þá tek ég í raun vægt til orða. Ég vil nefna umræðu sem fram fór í Ríkisútvarpinu þar sem ágætur þingmaður, hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir, fór mikinn í pistli og sagði að hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, sómamaður og formaður Frjálslynda flokksins, hefði verið að ala á útlendingahatri og ótta gagnvart útlendingum í ræðu sinni. Ég er með ræðu hv. þingmanns frá þingi Frjálslynda flokksins og það er ekkert í þeirri ræðu sem hægt er að færa því stað að hann hafi í nokkra veru flutt þess konar ræðu, langt því frá.

Síðan hafa ýmsir aðrir framsóknarmenn haldið áfram þessari delluumræðu. Ég vil nefna einn, hv. þm. Guðjón Ólaf Jónsson, sem hefur flutt hér furðulegar ræður og snúið út úr þeirri umræðu sem hefur m.a. getið af sér þetta mál. Þau eru ólík viðbrögð hv. þm. Sæunnar Stefánsdóttur og hv. þm. Guðjóns Ólafs Jónssonar. Hún hefur séð að sér. Hún dró orð sín til baka úr ræðustóli Alþingis, án þess að vísu að biðjast afsökunar á þeim, en ég virði hana fyrir það að hún dró þá delluumræðu til baka. En hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson hefur ekki enn séð ástæðu til að gera það en hann hefur farið hér mikinn þar sem hann hefur m.a. fullyrt að Frjálslyndi flokkurinn sé að daðra og með leyfi, frú forseta, vil ég vitna í ræðu hv. þingmanns. Hann segir í ræðu á hv. Alþingi:

„Með því að daðra við útlendingahatur, m.a. á grundvelli sjúkdóma eða sakaferils manna, er verið að færa stjórnmálaumræður á Íslandi niður á lægra plan en áður hefur þekkst og ég vil biðja ágætan formann Frjálslynda flokksins, hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, í fullri einlægni að feta ekki frekar þennan veg og leggja ekki upp í þessa feigðarför.“

Þar er hv. þingmaður að fjalla um ræðu sem flutt var á landsþingi Frjálslynda flokksins og það var nákvæmlega ekkert í ræðunni sem gaf tilefni til að gefa henni þessa einkunn, enda sá hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir ástæðu til að draga orð sín til baka. Hún gerði það, en hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson hefur ekki enn gert það. Ég vona að hv. þingmaður sjái sóma sinn í því að gera það einfaldlega. Það er oft betra að koma í ræðustól og segja: Ég fór offari. Það var ekkert í málinu sem gaf tilefni til að vera með þvílíka einkunnagjöf. Þess vegna væri réttast fyrir hv. þingmann að gera það einfaldlega. Auðvitað er það erfitt en málaflokkurinn á það svo sannarlega skilið að fá betri umræðu og sanngjarnari en fram hefur farið.

Ég vil minna á að ríkisstjórnin samdi skýrslu, Stefna ríkisstjórnarinnar um aðlögun innflytjenda. Ef ríkisstjórnin meinti eitthvað með því að ætla að gera eitthvað í málaflokknum væri skýrslan rædd á Alþingi. En það á ekki að gera það. Hún hefur ekki enn þá komist á dagskrá og það sýnir auðvitað forgang ríkisstjórnarinnar og hvað hún sýnir þeim málaflokki lítinn áhuga. Ég get lofað því að fólkið í landinu hefur áhuga á málinu. Það hefur nefnilega áhuga á málinu þó svo að hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson hafi það greinilega ekki, hann er á leiðinni burtu úr þingsalnum. Fólkið í landinu hefur áhuga á málinu (Gripið fram í.) vegna þess að það vill að náð verði einhverjum tökum á þessum málum og að umræðan fari fram með málefnalegum hætti. Það kemur m.a. fram í þeirri umsögn sem kom og var lesið upp úr frá Afli – Starfsgreinafélagi Austurlands. Fram kemur í nýlegri umsögn frá þeim að ástandið er óviðunandi. Við eigum að ræða það og hafa kjark til þess en vera ekki að úthrópa umræðuna og vera jafnvel að spyrja aðra stjórnarandstöðuflokka hvort þeir geti starfað með þessum Frjálslynda flokki, eins og kallað hefur verið eftir í umræðunni. Þetta er einfaldlega málefnaleg umræða sem þarf að fara fram, þ.e. hvort að við ætlum að bjóða upp á ástand þar sem verða stundum félagsleg undirboð og það ástand sem kemur fram í umsögn Afls – Starfsgreinafélags Austurlands.

Mér finnst að alþingismenn skuldi launahreyfingunni betri umræðu um þessi mál og þeir ættu ekki að forðast hana eins og Framsókn og Sjálfstæðisflokkur gera með því að taka ekki einu sinni þessa stefnu sína á dagskrá. Hún virðist ekki þola það, það má ekki ræða hana þannig að stjórnarandstaðan geti komið sjónarmiðum sínum og athugasemdum að. Það þola hinir háu herrar í stjórnarliðinu ekki, heldur vilja þeir frekar halda sérblaðamannafundi þar sem engin gagnrýnir ríkir og menn fá fjölmiðla sem geta jafnvel lyft þessu á stall.

Það er annar handleggur vegna þess að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerði það að umræðuefni að við værum gagnrýnir á það hvernig fjölmiðlar landsins hefðu fjallað um þessi mál. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson sagði að fjölmiðlar hefðu einnig tekið þátt í því að úthrópa umræðuna. Ég get tekið undir það. Ég get einnig tekið undir það þegar maður verður vitni að því að hver leiðarahöfundurinn á fætur öðrum varar við umræðunni, umræðu sem fólkið í landinu vill að fari fram og það frumvarp sem við ræðum er afrakstur af. Það er engin spurning um það í mínum huga að umræðan þarf að fara fram og með miklu málefnalegri hætti en raun ber vitni.

Einnig finnst mér það vera mjög athyglisvert sem fram kemur í umsögn Verkalýðsfélagsins á Akranesi, hvort ekki eigi að veita verkalýðsfélögunum einhvern þátt í því að geta fylgt eftir starfsfólki sem er langt að komið, að það hafi full réttindi á vinnumarkaði, og að verkalýðshreyfingin hafi eftirlitshlutverk. Mér finnst það koma vel til greina að verkalýðshreyfingin komi inn með beinni hætti. Hvers vegna segi ég það? Vegna þess að dæmin sanna það og dæmin sýna það einnig og umsagnir alls staðar að af landinu að þessi mál þurfa að fara í betri farveg.

Ég er ekki viss um að við leysum þessi mál hér. Menn geta mögulega farið með frumvarpið, ef það verður að lögum, í gegnum næstu kosningar og sagt: Jú, það voru samþykkt lög, en ég er ekki viss um að þetta séu tækin, þau þurfa að vera betri til að tryggja að félagsleg undirboð verði ekki. Við sættum okkur ekki við að fólk búi í gámum, skipum eða þaðan af verri aðstæðum, sem leggur þjóðfélaginu lið og tekur þátt í að vinna erfiðustu störfin sem í boði eru í þjóðfélaginu, jafnvel fyrir laun sem Íslendingar sætta sig ekki við.

Við ætlum ekki að búa til samfélag á Íslandi þar sem Íslendingar, sem tala íslensku, verða herraþjóð og síðan einhverjir aðrir sem búa jafnvel við algjörlega óviðunandi aðstæður og eru í raun utan við lög og rétt. Mér finnst ekki spennandi framtíðarsýn að horfa upp á það. Ég hafna einnig þeirri framtíðarsýn sem fram hefur komið hjá ýmsum, svo sem hugmyndafræðingum Samfylkingarinnar, að flytja inn margar milljónir manna … (MÁ: Hvað rugl er þetta, Sigurjón?) Það kom fram í máli Ágústs Einarssonar sem samdi sérstaka bók þar sem hann greindi frá því að hann vildi flytja inn 3–10 milljónir manna til að gera Ísland að hagkvæmu landi til að búa í. Við hefðum yfir svo miklum náttúruauðlindum að ráða en fámennið gerði það að óhagræði að búa hér og nýta þær. Þegar fram koma slíkar hugmyndir eigum við að ræða þær með gagnrýnum hætti. Þetta er ekki sú framtíðarsýn sem ég sé fyrir mér, alls ekki, og ég vona að svo sé um fleiri hv. þingmenn.