Málefni aldraðra

Föstudaginn 09. mars 2007, kl. 17:00:38 (6099)


133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

málefni aldraðra.

559. mál
[17:00]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði í stuttu andsvari að benda hv. þingmanni á að á síðustu árum hefur skapast mjög sterk hefð fyrir því að hafa samráð við Landssamband eldri borgara og fulltrúa eldri borgara varðandi málefni þeirra sem hefur leitt til þess að árið 2002 og síðan aftur síðastliðið sumar var gert samkomulag um að hrinda ákveðnum hugðarefnum þeirra í framkvæmd. Það átti við atriði sem sneru bæði að þjónustu við aldraða og að lífeyrismálum þeirra og jafnframt að öðrum þáttum sem þeir lögðu ríka áherslu á að færu í gegn.

Ég held að við munum það öll sem lásum blöðin 18. eða 19. júlí á síðasta ári að aldraðir fögnuðu þessu samkomulagi og töldu það vera til mikilla framfara. Við munum líka eftir því að það kom ákveðið bakslag í fögnuð þeirra eftir á þegar einhver atriði sem þeir voru ekki alveg sáttir við komu í ljós. En sú aðferð að hafa samráð við Landssamband eldri borgara og finna úrlausnir á hugðarefnum þeirra er rétta aðferðafræðin og ég held að hún hafi þegar upp er staðið leitt til mikilla framfara í málaflokki þeirra. Hið sama er að gerast núna varðandi málefni öryrkja. Í þessari viku var kynnt skýrsla um nýjar áherslur varðandi málefni öryrkja og örorkulífeyri sem Öryrkjabandalagið hefur fagnað og er gjörbylting í málefnum þeirra og áherslum í málaflokki þeirra.