Málefni aldraðra

Föstudaginn 09. mars 2007, kl. 18:04:18 (6115)


133. löggjafarþing — 85. fundur,  9. mars 2007.

málefni aldraðra.

559. mál
[18:04]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Erindi mitt í ræðustól er nú ekki mikið enda hafa félagar mínir, hv. þingmenn Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og Ellert B. Schram, flutt prýðilegar ræður. Þess er að minnast úr þeim hópi að upphafsmaður málsins er nú eiginlega hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir. Hún benti á þetta misræmi í umræðum um Ríkisútvarpið ohf. eða Ríkisútvarpið úff, eins og það mun vera kallað hingað og þangað. En sá nefskattur sem þar átti að innheimta átti að vera sá sami og í Framkvæmdasjóð aldraðra og þar með átti ekki að innheimta nefskatt, og á ekki enn, því þeim lögum verður að breyta, af þeim sem eingöngu hafa fjármagnstekjur.

Þuríður Backman og Sigurjón Þórðarson, hv. þingmenn, hafa talað hér snjallt mál einnig um þetta efni og almennt um málefni aldraðra. Það hefur hv. þm. Ásta Möller líka gert en því miður einungis í andsvörum þannig að það verður að leiðrétta hjá henni þann misskilning að það hafi að einhverju leyti verið Reykjavíkurborg að kenna að ekki hafi komist í gagnið þau áform um uppbyggingu hjúkrunarheimila sem lögð voru drög að með undirritun þeirra Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Jóns Kristjánssonar, núverandi hv. þingmanna, þá borgarstjóra og heilbrigðisráðherra, vorið 2002. Það var ósköp einfaldlega þannig að Sjálfstæðisflokkurinn var á móti þessari undirritun, hún fór mjög í taugarnar á honum vegna þess að hún var í námunda við kosningar. Ættum við nú kannski að hugleiða það betur núna þegar búið er að lofa, ég man ekki hve mörgum, tugum milljarða hér á nokkrum vikum og eru þó margar vikur eftir til kosninga.

Fjármálaráðherrar Sjálfstæðisflokksins æ síðan, nú í fimm ár, hafa trassað að setja fé í þetta verkefni. Það fé var strax til reiðu hjá Reykjavíkurborg ef ríkissjóður stæði við sitt. Ég ætla rétt að ítreka þetta þannig að þessu verði ekki ósvarað. En það var ekki auðvelt að koma þessari athugasemd á framfæri á réttum stað í umræðunni þar sem hv. þm. Ásta Möller hélt þessu fram í andsvari.

Það er þannig að það sem við hér erum að ræða um er nefskattur. Nokkuð sem á sér orðið langa sögu, því miður vil ég segja. Nefskattar eru óvenjuleg skattheimta vegna þess að þegar nefskattur er innheimtur er ekki gert ráð fyrir því að tekið sé tillit til tekna fólks eða aðstæðna. Nú er að vísu með þennan nefskatt að þar er það raunar gert. Hann er sem sé hálfur nefskattur og að einhverju leyti tekjuskattur vegna þess að það fólk sem hefur tekjur undir ákveðnum mörkum borgar hann ekki og fólk yfir ákveðnum aldri borgar hann ekki heldur. En hann er fyrst og fremst nefskattur að því leyti að þeir sem hafa lágar tekjur, en þó yfir mörkum sem tilgreind eru, borga jafnmikið og þeir sem hafa háar tekjur. Þetta er óheppileg skattheimta. Hefur reynst það meðal þeirra þjóða allra sem lagt hafa á slíkan skatt.

Þess er skemmst að minnast úr umræðunni um RÚV að þar skrifaði ríkisskattstjóri sem þá var ágæta umsögn og minntist á bændauppreisnir í Englandi og afsögn Thatcher sem dæmi um afleiðingar nefskatta. Hér á Íslandi hefur nefsköttum verið beitt nokkrum sinnum þó yfirleitt tímabundið. Hann á sér frægt upphaf á Íslandi, nefskatturinn, vegna þess að sú saga er til úr Landnámu, að ég hygg, eða hvort það var Heimskringla, að þegar Íslendingar voru að berjast við vondan kóng utan landsteina tóku þeir sig saman um að yrkja níðvísu um kónginn og það átti hvert nef að gera. Þessi nefskattur var vel reiddur af hendi og varð til þess að efla samstöðu þjóðarinnar og koma kónginum í skilning um að hér ætti hann ekkert erindi.

Nefskattar eru að öðru leyti óheppilegir eins og ég ræddi áðan. Ég tel að þeir eigi því aðeins við að um sérstakt, tímabundið átak sé að ræða. Þannig að þjóðin sé með nefskattinum að reiða fram nánast eins og gjöf í söfnun fyrir góðu málefni. Menn sætta sig við að gera það einu sinni, tvisvar eða þrisvar. En umfram það á ekki að leggja á nefskatta því ef um fasta skattheimtu er að ræða er eðlilegt að hún fari eftir tekjum manna og aðstæðum öllum samkvæmt þeim kerfum sem við höfum byggt inn í skattheimtu okkar og flestir telja eðlileg.

Nú er það svo að hér er um ákaflega verðugt málefni að ræða og þessi skattur hefur lifað lengi. Því miður eru ekki horfur á því að við náum þeim árangri í verkefnum sem varða framkvæmdir fyrir aldraða að hægt sé að leggja niður skattheimtuna. Öldruðum fjölgar sem hlutfalli af þjóðinni og væntanlega verður það svo um áratugi þá sem næstir eru að framkvæma þarf meira og byggja meira fyrir þann hóp. Og til þess þarf fé. Þar að auki gerist það að sjálfsögðu að kröfur manna aukast um þessa hluti og okkur þykir ekki sæma að veita þá þjónustu sem þó þótti skárri en ekkert fyrir 10 árum, 20, 30 eða 40.

Það gerðist nú fyrir þrýsting stjórnarandstöðunnar fyrir skömmu að samþykkt voru á þinginu lög um það að hætta þeirri vitleysu sem upp var tekin þegar harðnaði á dalnum í upphafi tíunda áratugarins, að veita fé úr Framkvæmdasjóði aldraðra til rekstrar. Þessu var ekki hætt þegar ástandið skánaði heldur var því haldið áfram og framkvæmdasjóðurinn þannig í raun og veru innlimaður inn í fjárveitingakerfi ríkisins í staðinn fyrir að standa utan við það eins og að var stefnt í upphafi.

Þessu er nú lokið og ég held að þetta hafi ekki verið þeim til sóma sem stóðu að þessu þann tíma sem þetta var. Við fáum það alltaf framan í okkur, við jafnaðarmenn, að ágætur heilbrigðisráðherra hafi gert þetta í upphafi. Ég ætla ekki að afsaka hann nema með því að þá voru fjármál ríkisins með öðrum hætti en þau eru núna. Og þessi ágæti heilbrigðisráðherra átti nú m.a. þátt í því að þau bötnuðu með því að standa heill og óskiptur að framfaramálum sem velsæld okkar á núna rót í, t.d. samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Ég verð að segja að í þessu ljósi þykir mér höfuðið bitið af skömminni með þeim upplýsingum sem nýlegar eru fyrir þingmönnum öllum að ég held, eða flestum, að minnsta kosti mér, og fram komu í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur á þinginu í fyrravor, að veittir hafi verið, öll þau ár sem upplýsingar náðu til, frá árinu 1999, sérstakir styrkir úr þessum framkvæmdasjóði. Þeir voru, þannig að það sé á hreinu, árið 1999 12,5 millj., árið 2000 5,9 millj., árið 2001 heilar 27,2 millj., 2002 12,2 millj., 2003 10,8 millj. og 2004, sem er síðasta árið sem þetta nær til, 10,8 millj. einnig.

Þetta er ekki há upphæð þegar litið er á heildarfjármagn í sjóðnum. En þetta eru milljónir sem hefðu getað nýst betur og áttu að nýtast betur. Þetta eru fjármunir sem áttu að nýtast betur úr Framkvæmdasjóði aldraðra, sem gert er að fjármagna framkvæmdir, á þessum tíma og enn, og rekstur stofnana fyrir aldraða. Þannig að hér er um misnotkun að ræða. Misnotkun þeirra heilbrigðisráðherra sem sátu á þessum tíma sem hér er ljós, frá 1999–2004 og áfram 2005, 2006 og 2007, því enn er þetta við lýði. Þegar þessi listi er lesinn, sem er ákaflega ófullkominn, vegna þess að ekki er getið um þau verkefni sem fénu er úthlutað til heldur eru mannsnöfn eða stofnana aðeins sett niður, er augljóst að ekki er um nein þau verkefni að ræða sem tengjast framkvæmdum eða jafnvel ekki rekstri stofnana aldraðra með neinum beinum hætti. Sum þessara verkefna eru alveg augljóslega þannig að þau tengjast öldruðum ekki nokkurn skapaðan hlut eða virðast ekki gera.

Þar er ekki því góða fólki um að kenna sem fær þessa styrki vegna þess að það sótti alls ekki um styrki úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Það er þó þannig að heilbrigðisráðherrarnir hafa ekki beinlínis opnað framkvæmdasjóðinn og auglýst styrkveitingar úr honum heldur hafa þeir notað hann sem einhvers konar vasapeninga í ráðuneytinu, aukalega fjármuni sem þeir gætu seilst í til þess að þurfa ekki að neita ýmsum væntanlega góðum óskum um fé til margs konar verkefna á heilbrigðissviði. Það skulum við að minnsta kosti telja því að hér eru kórar og kvikmyndaframleiðendur og hinir og þessir sem kynni að vera nokkuð torvelt að tengja beinlínis við heilbrigðismál. Hér er t.d. Ungmennafélag Íslands sem ég vona að hafi gert sér gott af þessu fé og geri ég ráð fyrir að það verkefni sé fullkomlega styrkhæft. En ekki kemur hér fram að það hafi beinlínis tengst öldruðum enda heitir félagið Ungmennafélag Íslands.

Höfuðið af þessari skömm, þannig að það sé nú rifjað upp, og á að rifja upp í hvert einasta sinn sem Framkvæmdasjóður aldraðra kemur til umræðu á þinginu, beit núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, fyrir aðeins nokkrum vikum þegar hún gaf út kosningaáróður fyrir sig og fyrir Framsóknarflokkinn með styrk úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Það er algerlega ótrúlegt að þetta skuli eiga sér stað á árinu 2007 eftir þá umræðu sem farið hefur fram undanfarin missiri og undanfarna áratugi um þörfina á bættum siðum í stjórnmálum á Íslandi og þörfina á gagnsærri og opinni stjórnsýslu.

Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur kosið að verja þessa gerð sína með kjafti og klóm frekar en að játa á sig skömmina og viðurkenna hreinskilnislega að gerð hafi verið mistök sem sjálfsagt sé að leiðrétta. En þetta er sem sé þannig að það fé sem Íslendingar, skattborgarar, sennilega 10, 20, 30 eða 40, voru krafðir um og létu af hendi af frjálsum vilja og með glöðu geði, vegna þess að þetta er einn af þeim sköttum sem menn borga hvað örast, fór ekki í framkvæmdir fyrir aldraða, fór ekki í hjúkrunarheimili eða aðrar stofnanir fyrir aldraða. Þeir fóru heldur ekki í að reka stofnanir fyrir aldraða í nokkra daga. Þeir fóru ekki einu sinni í rannsóknir eða söng eða einhver önnur málefni, blaðaútgáfu, kvikmyndir eða hvað það hefur nú verið, sem einhvern veginn tengjast öldruðum eða tengjast að minnsta kosti heilbrigðismálum. Heldur fóru þeir í það, forseti, nefskattur þessara skattborgara rann til þess að borga kosningaáróður fyrir stjórnmálamanninn Siv Friðleifsdóttur, núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, og fyrir flokk hennar Framsóknarflokkinn.

Ég fagna því að þessar breytingar skuli hafa orðið á framkvæmdasjóðnum. Þær voru dagsettar þannig að styrkirnir eru enn veittir og reksturinn er enn borgaður úr sjóðnum og á að gera til næstu áramóta. Það sýnir fávisku mína að ég er ekki enn fullviss um hvort þessum styrkveitingum hefur í raun og veru verið rutt í burtu úr þessum sjóði. En þeir dugðu þó til þess að stjórnmálamanninum Siv Friðleifsdóttur, hæstv. heilbrigðisráðherra, og flokki hennar, Framsóknarflokknum, tókst að krækja sér þar í bita, sem er lýst með frægum orðum jafnaðarmanns sem nú er látinn: Ef löglegt, þá algerlega siðlaust.