Stjórnarskipunarlög

Mánudaginn 12. mars 2007, kl. 21:01:32 (6222)


133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[21:01]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum stjórnarskrá Íslands og tillögu sem liggur fyrir þinginu um breytingu á henni og eins og hér hefur komið fram þá eru það oddvitar stjórnarflokkanna sem flytja málið, hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde og hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Jón Sigurðsson.

Menn hafa rætt nokkuð aðdraganda þess að við fengum þetta frumvarp á borð núna í blálokin á þinghaldinu, að því er við töldum, því samkvæmt áætlun þingsins er gert ráð fyrir að hlé verði gert á þinghaldinu síðar í þessari viku, á fimmtudag ef ég man rétt. Nei, þá tóku þeir sig til þessir ágætu ráðherrar og hittust á tveimur, þremur næturfundum og úr varð sá texti sem við höfum fyrir framan okkur. Það er óvenjulegt að flutt sé frumvarp í nafni tveggja manna en ekki ríkisstjórnarinnar og minnir svolítið á annað mál sem einnig var til umræðu í dag. Það var Íraksmálið og listi hinna viljugu þjóða sem þeir véluðu um á sínum tíma, þáverandi hæstv. forsætisráðherra Davíð Oddsson og þáverandi hæstv. utanríkisráðherra Halldór Ásgrímsson. Að sjálfsögðu eru þessi mál gerólík og óskyld en vinnubrögðin áþekk að sumu leyti.

Hæstv. ráðherra Jón Sigurðsson sagði að hann tryði því að hægt yrði að tryggja í senn að málið fengi skjóta afgreiðslu og vandaða málsmeðferð. Þá spyr ég: Stendur enn til að ljúka þinghaldinu nú um miðjan mánuðinn? Stjórnarandstaðan hefur fyrir sitt leyti boðist til þess að lengja þinghaldið, að því leyti sem við ráðum einhverju um það þá erum við reiðubúin til slíks en í mínum huga er það alveg ljóst að ef við ætlum að tryggja vandaða málsmeðferð þá verður að lengja þinghaldið. Röksemdir hæstv. ráðherra voru á þá lund að hér væri byggt á mjög traustum grunni. Málið hefði fengið umfjöllun í auðlindanefndinni árið 2000 og einnig hefði stjórnarskrárnefnd á vegum þingsins, sem sett var á laggirnar á árinu 2005, unnið að þessum málum.

Vandinn er bara sá að þetta er ekki eins og hvert annað lagafrumvarp sem fær umfjöllun í fagnefnd á vegum þingsins. Hér erum við að tala um stjórnarskrá íslenska lýðveldisins og hver einasti þingmaður þarf að þekkja vel til málsins þannig að þetta er ekki spurning um að starfsnefnd komi að málinu og afgreiði það frá sér. Nei, við verðum að tryggja vandaða málsmeðferð í þingsalnum. Allir þingmenn þurfa að vera þar með í ráðum.

Það sem er athyglisvert við þá umræðu sem hefur spunnist í tengslum við þetta frumvarp til stjórnarskipunarlaga er hve óljóst málið er. Það liggja heilar hjarðir lögfræðinga á vegum hagsmunasamtaka yfir þessu frumvarpi til að ráða í hvað það raunverulega þýðir. Við heyrðum í fréttum Ríkisútvarpsins um helgina að framkvæmdastjóri LÍÚ hafði uppi slík orð, hann sagði að sérfræðingar sambandsins væru að reyna að átta sig á því hvað þetta þýddi í reynd. Menn velta því fyrir sér hvort það geti verið að í stað þess að tryggja og treysta auðæfi þjóðarinnar í þjóðareign, náttúruauðlindir Íslands í þjóðareign, þá sé í reynd verið að stjórnarskrárbinda hið umdeilda fiskveiðikerfi sem við búum við, kvótakerfið. Þetta eru gagnstæð sjónarmið sem fram hafa komið. Ég er því mjög fylgjandi að treysta sameign þjóðarinnar eða þjóðareign á náttúruauðlindum Íslands. Mér finnst það skipta mjög miklu máli. Og það er annað og meira en orðin tóm og á að vera annað og meira en orðin tóm. Ég held t.d. að ef það gerðist á næstu árum og áratugum að Íslendingar gengju í ríkjabandalag á borð við Evrópusambandið, sem ég er aldeilis ekki fylgjandi, þá væri mikilvægt að hafa í stjórnarskránni ákvæði sem tryggðu það að náttúruauðlindir Íslands til lands og sjávar væru þjóðareign. Þetta skiptir því afar miklu máli.

Ég hef hlustað af athygli á þá umræðu sem fram hefur farið hér í dag. Sérstaklega þóttu mér athyglisverð orðaskipti hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar og hæstv. viðskiptaráðherra Jóns Sigurðssonar, þegar þingmaðurinn beindi þeirri spurningu til ráðherrans á hvern hátt þessi texti sem hér er lagt til að verði felldur inn í stjórnarskrá Íslands, festi náttúruauðlindirnar í eign þjóðarinnar. Ég man ekki nákvæmlega hvernig hann spurði en það var á þessa leið. Hæstv. ráðherra sagði m.a., með leyfi forseta:

„Ég hef skilið hugtakið þannig að það sé vörn í því að stjórnarskrárákvæðið geri ráð fyrir því að þjóðareignin haldist. Ég hef heyrt lögskýringar um það að með lögum megi taka einstaka eign út úr þjóðareigninni og ráðstafa henni síðan, en þjóðareignin sé heildstætt hugtak og það megi ekki gera það með öðrum hætti en þá þeim sem ég nefndi.“

Hvað þýðir þetta? Á þjóðareignina, með öðrum orðum auðlindirnar, ber að líta sem heildstætt fyrirbrigði en engu að síður er hægt að taka tiltekna einstaka þætti og ráðstafa þeim með öðrum hætti. Hvað þýðir þetta? Hvað þýðir þetta nákvæmlega? Síðan segir hæstv. viðskiptaráðherra, með leyfi forseta:

„Ég vitnaði til þess sem ég hef heyrt eftir lögfræðingum, prófessorum við Háskóla Íslands, að til sé undanþága frá því að þjóðareigninni verði ekki ráðstafað með varanlegum hætti. Það er meginreglan.“

Hvað þýðir þetta? Er hægt með öðrum orðum að ráðstafa þjóðareigninni á annan hátt en þann sem menn eru að tala hér fyrir þegar þeir hafa talað fyrir þessu frumvarpi? Hér eru frumvarpshöfundarnir, flutningsmennirnir, komnir að því er mér finnst í hálfgerðan mótsagnarhnút og við umræðuna verður að skýra hvað átt er við. Lögspekingum þykir orðalagið í greininni orka tvímælis og á hvern hátt er vísað til náttúruauðlinda, annars vegar sem þjóðareignar og hins vegar er tengingin við 72. gr. stjórnarskrárinnar sem fjallar um einkaeignarrétt. Það er ekki vísað í aðrar greinar sem taka á umhverfisrétti og öðrum þáttum, þarna er vísað í einkaeignarréttinn. Þjóðareignin er sem sagt skilyrt á þennan hátt … (Gripið fram í.) já, og þá vaknar sú spurning hversu skýr þessi hugtök öll eru þegar öllu er á botninn hvolft. Við erum nefnilega að verða vitni að breytingum varðandi eignarréttarákvæðið í íslenskri lagasmíð almennt.

Við ræddum ítarlega um eignarrétt á vatni, það mun hafa verið á síðasta ári, síðastliðið haust, og menn deildu og voru ekki á eitt sáttir. Stjórnarmeirihlutinn sagðist ekki vera að breyta einu eða neinu. Í reynd væri verið að laga vatnalögin frá 1923 að því sem hefði verið dómapraxís. Það væri enginn eðlismunur annars vegar á frumvarpinu sem samþykkt var með fyrirvara og tímasetningum í haust og hins vegar vatnalagafrumvarpinu frá 1923. Við vorum mörg á öndverðum meiði við þennan skilning og töldum að menn væru að festa eignarréttarákvæðin í sessi og hverfa frá þeirri hugsun sem við töldum að vatnalögin frá 1923 byggðu á að verulegu leyti og reyndar öll lög um náttúruauðlindir Íslands í aldanna rás, að hverfa frá nýtingarréttarhugsuninni yfir í einkaeignarréttarhugsun.

Þetta hefur reyndar verið að gerast á undanförnum árum með hinni alræmdu lagasmíð frá 1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, sem eru einhver hrikalegustu lög, einhver mestu mistök sem hér hafa verið gerð að festa í sessi eignarrétt einkaaðila á heitu vatni, nánast alla leið til Kína. Það eru strangari einkaeignarréttarlegar heimildir í íslenskri auðlindalöggjöf en við finnum jafnvel í Bandaríkjunum, allt þetta er á fljúgandi ferð, það er verið að festa einkaeignarréttinn í sessi. Síðan fáum við þessa grein sem fjallar um auðlindir til sjávar og í landinu og auðvitað skiptir mjög miklu máli hvaða skilning menn leggja í þetta ákvæði og í þessa samsuðu þegar menn fella þarna saman annars vegar þjóðareignarhugtakinu og hins vegar einkaeignarréttarhugtakinu.

Þetta eru hlutir sem þarf að sjálfsögðu að ræða mjög vel og það er mikill misskilningur hjá hæstv. iðnaðarráðherra og formanni Framsóknarflokksins að það sé hægt að fara í gegnum slíka umræðu á nokkrum klukkutímum. Menn voru í alvöru að biðja stjórnarandstöðuna um það fyrir helgina, ég held það hafi verið á fimmtudag, að veitt yrðu afbrigði til þess að hespa málinu af í hvelli. Og í þinginu erum við enn að ræða um að ljúka þinghaldinu í þessari viku. Það er verið að ræða um það á fundum með formönnum þingflokka. Er engin alvara á bak við þessi vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og formanna stjórnarflokkanna? Eru þetta bara einhver sýndarvinnubrögð?

Við höfum boðið það að þinghaldið verði lengt og við setjumst af alvöru yfir þessi mál. Ég er alveg sannfærður um að á þinginu er yfirgnæfandi meiri hluti fyrir því að festa í sessi í stjórnarskrá Íslands traust ákvæði um þjóðareign á auðlindum til lands og sjávar, ég er alveg sannfærður um það. En þá verðum við líka að tryggja vönduð vinnubrögð.

Ég hef aðeins imprað á nokkrum þáttum. Við erum búin að fara rækilega í gegnum þann texta sem fylgir þessu frumvarpi. Við höfum kallað til sérfræðinga og munum gera enn. Og við munum leggja allt sem við getum fram til þess að vinna í þeirri nefnd sem fær málið til umfjöllunar verði sem vönduðust og verði sem best en ég frábið mér sýndarvinnubrögð, ég frábið mér einhverja sýndarmennsku í tengslum við þetta grafalvarlega og mikilvæga mál.

Það á einhvern tíma eftir að verða rifjað upp hvernig tildrög þess voru að þetta frumvarp kom hingað inn á borð þingmanna í blálokin á þinghaldinu. Það var Framsóknarflokkurinn sem vildi draga athygli að sér vegna slaks gengis í skoðanakönnunum og bjó til þessa uppákomu og síðan lífgjafinn, Sjálfstæðisflokkurinn, sem kom með opinn faðminn og á einum eða tveimur næturfundum kokkuðu formenn stjórnarflokkanna þetta upp. Þetta er veruleikinn í málinu, þetta er raunveruleikinn og það er þetta sem minnti mig svo óhugnanlega mikið á mál sem kom upp á svipuðum tíma árs árið 2003. Það var þegar þeir Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson urðu ásáttir um að setja Ísland á lista hinna viljugu þjóða, nokkuð sem sérstaklega Framsóknarflokkurinn hefur neitað mjög ákaft að hafi verið gert en hefur verið upplýst með tilvísun í gögn að raunverulegt boð og ósk kom frá Bandaríkjunum og þessir leiðtogar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins ákváðu að verða við því boði.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta að sinni. Ástæða þess að ég rifja upp Íraksmálið er að sjálfsögðu einvörðungu vegna vinnubragða formanna stjórnarflokkanna. Þessi mál eru að sjálfsögðu með öllu óskyld en þegar við gerum breytingar á stjórnarskrá íslenska lýðveldisins þá vöndum við til verka.