Stjórnarskipunarlög

Mánudaginn 12. mars 2007, kl. 22:23:54 (6232)


133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[22:23]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst miður að verða vitni að því að hæstv. umhverfisráðherra er hér að grafa undan merkingu og skilningi landsmanna á lögunum eins og fólkið í landinu hefur skilið þau, a.m.k. skiljum við í Frjálslynda flokknum ekki þessi lög svo að hér hafi myndast einhver eignarréttur, alls ekki. Við höfnum einfaldlega þessari úthlutun sem gengur út á að viðhalda hér kerfi sem hefur ekki skilað öðru en tjóni fyrir þjóðina, landsbyggðina, eins og landsmenn hafa orðið vitni að. Á Ísafirði var haldinn neyðarfundur vegna stöðu mála þar af völdum kerfisins.

Mér finnst ábyrgðarhluti þegar ríkisstjórnin kemur hingað með eitthvert frumvarp þar sem hún getur ekki skýrt út hversu mikill eignarréttur hafi myndast, hversu mörg prósent hafi myndast við það að ekki hafi verið hreyft við þessu óréttlætismáli allan þennan tíma. Hæstv. ráðherra skuldar þjóðinni svolítið skýrari svör: Hversu mikill eignarréttur telur hún að hafi myndast?

Síðan er annað mál sem mig langar að koma inn á. Hæstv. ráðherra segir í ræðu sinni að einhverjir menn séu að tala um að þetta frumvarp þýði allt annað en hún leggur í merkingu þess sem ég get tekið að einhverju leyti undir, við eigum að taka af öll tvímæli um að þjóðin ráði yfir auðlindum sínum. Það eru hins vegar ekki einhverjir menn sem halda þessu fram, heldur þingmenn og samherjar ráðherrans í ríkisstjórninni og þeir halda þessu fram á opinberum vettvangi. Mér finnst ekki sanngjarnt þegar við erum að ræða um grundvallarlög að tala um þessa menn sem einhverja menn úti í bæ. Þetta eru stuðningsmenn þessa frumvarps sem hér er lagt fram og ef stuðningsmennirnir leggja svo mismunandi merkingu í það sem stendur í þessu plaggi (Forseti hringir.) finnst mér ekki hægt að kalla þá einhverja menn úti í bæ.