Stjórnarskipunarlög

Mánudaginn 12. mars 2007, kl. 22:52:56 (6238)


133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[22:52]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir athyglisvert að hv. þm. Birgir Ármannsson skuli ætla að gæta hagsmuna Evrópusambandsins í væntanlegum og hugsanlegum aðildarviðræðum við það. Nú veit ég að hv. þingmaður er vel að sér í Evrópumálum. Hann þekkir mætavel — ef við eigum að halda þessari umræðu áfram sem hefur ekkert að gera með þetta stjórnarskrárákvæði — að hvert einasta ríki sem hefur gengið í Evrópusambandið er með stjórnarskrá. Þetta hefur í raun ekkert með það að gera.

En af því að hv. þingmaður tekur þetta upp finnst mér vert að benda á að það hefur aldrei verið markmið Evrópusambandsins að ganga svo að þeim löndum sem vilja ganga þar inn að það gangi á þeirra helstu hagsmuni eða komi þeim á kné. Það hefur aldrei verið markmiðið í slíkum samningum. Meðal annars má vísa til þess að í samningaviðræðum fékk sumarbústaðaeign í Danmörku undanþágu á sínum tíma. Meðal annars var fundin upp ný skilgreining á heimskautalandbúnaði sem talin var þjóna hagsmunum norðurhéraða Svíþjóðar og Finnlands.

Upp koma margvísleg sjónarmið í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Ég trúi ekki að hv. þingmaður hafi með fyrirspurn sinni verið að reyna að tryggja þannig hagsmuni Evrópusambandsins að það eigi meiri möguleika á að komast í sjávarauðlindina, eins og ég skildi hann, ef við mundum ekki lögfesta ákvæði í þá veru sem hæstv. umhverfisráðherra vill að við lögfestum í stjórnarskrá.

Svona skil ég hv. þingmann. En ég skil hins vegar vel að hann flýi af hólmi á þinginu (Forseti hringir.) og fari til Brussel í þessari umræðu.