Stjórnarskipunarlög

Mánudaginn 12. mars 2007, kl. 23:37:51 (6247)


133. löggjafarþing — 86. fundur,  12. mars 2007.

stjórnarskipunarlög.

683. mál
[23:37]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kannski þurfti ég ekki að spyrja. Það er ljóst að hv. þingmaður hefur allt annan skilning á ákvæðinu en hæstv. umhverfisráðherra. Það kom glöggt fram í andsvari hans.

Ég ætla að reyna, virðulegi forseti, örlítið betur. Reyna að draga fram skilning hv. þingmanns á hugtakinu þjóðareign. Er það réttur skilningur, sem komið hefur fram í umræðunni, að hugtakið verði fyllt af löggjafanum, þ.e. að það verði löggjafans að færa inn hvað felist í hugtakinu þjóðareign, að það verði þá löggjafans, eins og hæstv. byggðamálaráðherra orðaði það í dag, að ákveða hvaða náttúruauðlindir ekki eiga þar heima? Með öðrum orðum þýðir þetta að það er í raun engin varanleg vernd fyrir náttúruauðlindir að löggjafinn afhendi þær einkaaðila sem einkaeign.